18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg er sammála háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) um það, að þessum lögum þarf að koma inn í meðvitund þjóðarinnar, svo að eftir þeim verði farið. Og það skal verða reynt. En ef það tekst ekki á nokkrum árum, þá er ekki annað fyrir en hverfa aftur að gamla laginu.

Háttv. þm. (G. G.) nefndi dæmi um það, hve framtalið hefði verið óábyggilegt. En þar við er það að athuga, að hingað til hefir ekki verið skylda að telja fram tekjur sínar upp á æru og samvisku, svo sem verður eftir þessu frv. Og þegar allir gefa upp, þá er miklu hægra fyrir skattanefnd að sjá, hvort rjett er. Þá má bera saman skýrslurnar og fá út það, Sem sanni er næst. Ef einn bóndi gefur upp 3 kr. ágóða á ánni, en annar 1 kr., þótt aðstaða og landkostir sjeu hinir sömu, þá sjer nefndin undir eins, að eitthvað er athugavert. Auk þess mun verða reynt að fara yfir allar skýrslur af landinu fyrstu árin og bæta úr og leiðbeina, ef ósamræmi finst.