18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Steinsson:

Jeg kann betur við að gera grein fyrir atkvæði mínu í stóru máli sem þessu. Jeg hjelt, að jeg mundi standa einn uppi með skoðun mína hjer í deildinni, og því gladdi mig að heyra háttv. þm. Vestm. (K. E.) halda fram líkri skoðun.

Jeg hefi litið svo á, að frv. eins og það kom frá hæstv. stjórn, og enda líka frá hv. Nd., væri svo meingallað, að jeg efast um, að jeg geti gefið því atkvæði mitt. Frv. hefir nú legið í hv. Nd. allan þingtímann. Tíminn, sem þessi háttv. deild hefir yfir að ráða til þess að fjalla um það, er ekki lengri en svo, að nefndin treystir sjer ekki til að gera brtt. við það, hvað þá einstakir þm. Nefndin viðurkennir þó, að frv. sje gallað, og eru helstu gallarnir nefndir í nál. En þar sem nefndin viðurkennir, að þörf sje að breyta frv., þá finst mjer það hljóti að vera móti betri vitund, að hún ræður háttv. deild til að samþykkja það óbreytt.

Jeg er nú sammála nefndinni um þá galla, sem hún nefnir í nál. Og þar sem jeg hefi ekki sjeð mjer fært að koma með brtt., vegna naumleika tímans, þá held jeg, að rjettast væri að leggja frv. á hilluna, eins og háttv. þm. Vestm. (K. E.) vildi. Og jeg sje ekki, að ríkissjóður misti mikils í við það.

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) lagði áherslu á það, að ríkissjóð vantar tekjur. Á það ber að líta, en þó má ekki einblína svo á það, að hitt sje ekki jafnframt athugað, hvað þjóðin getur borið. Og svo er ekki sama á hvern hátt tekjumar eru teknar.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að við mættum til að fá tekjur í ríkissjóðinn. En þá má með alveg jafnmiklum rjetti segja, að við mættum til að skera niður útgjaldaliði. Á þessum tímum má ekki eingöngu hugsa um hvað ríkissjóður þarf. Það verður líka að reyna að minka þarfirnar.