18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Mjer virðist háttv. þm. Snæf. (H. St.) hafa mjög líkar skoðanir og jeg. En jeg varð nefndinni samferða um að leggja til, að frv. yrði samþykt óbreytt, af því að jeg hygg, að það gefi meiri tekjur, og jeg hugði, að betur mundi takast að koma á breytingum til bóta, með því að taka þessa leið. Helst hefði jeg kosið, að lögin yrðu látin gilda aðeins til eins árs, en meiri hluti nefndarinnar vildi hafa frestinn tvö ár. Ef háttv. þm. Snæf. (H. St.) vill koma með brtt. í þá átt, þá mun jeg greiða henni atkvæði. Ef frv. verður felt eða stöðvað, þá er enn fremur kipt stoðunum undan sumu því, sem er í þann veginn að ganga fram, t. d. breytingu á sveitarstjórnarlögunum, sem hjer er líka á dagskránni.

Um skattinn á hlutafjelögum og ósamræmið milli hans og skatts á einstökum mönnum er það að segja, að jeg vil bæta úr því, með því að hækka skatt á háum tekjum einstakra manna.

Meiri tekjur fást ekki af þessu frv. en gildandi ákvæðum, nema sem nemur því, sem skatturinn verður nú hærri á lágum tekjum, því að ekki hækkar skatturinn af háu tekjunum, heldur lækkar. En minn vilji er nú sá, að lækka á lágu tekjunum en hækka á þeim háu, og í þá átt gengur brtt., sem nefnd er í nál. Þó gat skeð, að tekjur af skattinum hefðu orðið heldur lægri eftir þeim skattstiga en þeim, sem í frv. er, en við því mátti gera, með því að hækka stigann allan. Hlutföllin hefðu lítið raskast við það. En jeg áleit ekki fært að koma fram með þessar brtt., er svo mjög var liðið að þingslitum, enda þótt þær væru til bóta. Því var þessi leið tekin.