18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. ásamt háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.), um það að nema burt ákvæðið um að skatt þennan megi hækka og lækka í fjárlögum fyrir eitt ár í senn. Þetta ákvæði var felt úr fasteignaskattslögunum og lögunum um lestagjald af skipum, og því er í raun og veru engin ástæða til að halda því hjer. Og auk þess eru hjer enn aðrar og meiri ástæður fyrir hendi. Það hefir greinilega komið fram hjer í deildinni, að menn eru óánægðir með stigbreytinguna á tekjuskattinum. En ef skattstiginn er ranglátur, þá er því fjarstæðara að láta 52. gr. standa og verða þess valdandi, að ranglætið verði margfaldað. Því að jeg býst fremur við, að hækkað verði en lækkað. Og ef brtt. nefndarinnar gengur fram, þá eiga lögin ekki að gilda nema eitt eða tvö ár óbreytt, og er þá því minni ástæða til að halda þessu ákvæði. Þess vegna finst mjer, að öll nefndin ætti að fallast á brtt. okkar.

Hæstv. fjrh. (M. G.) talaði um, að drjúgar tekjur mundu verða af þessum skatti. Jeg býst nú við því líka, en þó meginn hvorki vjer nje stjórnin gera sjer of bjartar vonir um það, þegar af þeirri ástæðu, að háskattur verður ekki til, eða mjög lítill.

Háttv. þm. Snæf. (H. St.) sagði, að nefndin legði til móti betri vitund að samþykkja frv. Þetta eru hörð orð og ekki rjettmæt. Nefndin lagði það til vegna tekjuþurðar ríkissjóðs, og ber um leið fram brtt. um að lögin verði endurskoðuð eftir tvö ár. Með þeirri brtt. er lögð áhersla á það, að nefndin er óánægð með frv.

Annars verð jeg að segja það, að mjer finst meðferð þingsins á þessu máli harla undarleg. Háttv. Nd. er með málið nærri allan þingtímann og gerir nálega engar breytingar á frv. Og það er ekki einasta þetta mál, heldur stimpilgjaldsfrv. og fleiri skattamál, sem svo hefir farið um. Mjer er það með öllu óskiljanlegt, hvað háttv. Nd. hefir verið að gera með þessi mál í svo langan tíma — annað en þá að sofa á þeim.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál nú að sinni, en vona, að brtt. mín og háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) verði samþykt.