19.05.1921
Efri deild: 73. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. þm. Snæf. (H. St.) sagði, að frv. væri mjög gallað, en við 2. umr. benti hann ekki á annað en það, sem nefndin hafði áður talað um, sem sje skattstigann í 6. og 7. gr. Jeg held því fram, að frv. sje vel undirbúið, en það er ekki hægt að búa til skattstigann svo öllum líki vel. Ef á að endurskoða lögin á næsta þingi, þá er engin reynsla fengin fyrir þeim, það verður ekki einusinni búið að gefa út fyrstu skattaskrárnar eftir þeim. Þar að auki verður ýmislegur kostnaður fallinn á, sem til einskis gagns mundi verða, ef lögunum verður breytt á næsta þingi, eins og t. d. reglugerðar- og eyðublaðaprentun. Af þessum ástæðum tel jeg ekki rjett að samþ. brtt. háttv. þm. (H. St.).