06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

11. mál, stimpilgjald

Frsm. (Jakob Möller):

Út af þessu, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði síðast, vildi jeg skjóta því til hans, hvort stjórnin geti ekki gefið valdsmönnum alment umboð eða heimild til þess að gefa eftir þessi stimpilgjöld, eins og önnur.

Annars þarf jeg engu að svara af því, sem hæstv. fjrh. (M. G.) tók fram; við erum sammála um flest. Hann hefir lagt fullmikið upp úr þessu orði „stórvirki“, sem jeg notaði í sambandi við þetta mál. Það sje fjarri mjer að vilja ekki viðurkenna persónulegan dugnað þessa hæstv. ráðh. (M. G.) til ýmsra stjórnarstarfa, og trúi jeg því vel, að hann hafi sjálfur lagt allmikla vinnu í þessi frv. — Hinsvegar áleit jeg ekki, að jeg þyrfti að taka það fram, af hverju drógst úr hömlu hjá nefndinni að skila þessu máli, enda er að því vikið í nál. Nefndin geymdi þetta frv. af ásettu ráði, án þess þó að bein ákvörðun væri tekin um að „setjast á það“.