18.05.1921
Efri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

11. mál, stimpilgjald

Björn Kristjánsson:

Út af ávísununum vil jeg segja fáein orð. Eins og deildarmenn vita, er ekki ætlast til, að tjekkar sjeu stimplaðir, og er það sökum þess, að í þeim felst enginn gjaldfrestur. Aftur eru víxlar, ávísanir og skjöl, sem gjaldfrestur er á, stimplað í öðrum löndum. Þegar nú er viðurkent, að tjekkar skuli ekki stimplaðir, sökum þess, að á þeim er enginn gjaldfrestur, þá virðist hið sama eiga að gilda um ávísanir, þegar eins er ástatt með þær. En það kemur einmitt oft fyrir. T. d. er bóndi sendir ávísun á viðskiftareikning sinn hjá kaupmanni, er óviðkunnanlegt, að hann skuli þurfa að greiða stimpilgjald af henni. Eins eru slíkar ávísanir oft sendar í bankana. Að vísu hafa bankarnir tjekkbækur, sem viðskiftamenn þeirra fá. En oft kemur fyrir, að þá vantar tjekkeyðublöð og kunna ekki að stíla tjekka, og senda því ávísanir á bankann. Þetta bar oft við er jeg var bankastjóri, og vanalega ráku bankarnir ávísanirnar ekki aftur, þótt það hefði verið rjettast. Bankarnir vildu hlífa mönnum við óþægindum út af því. Slíkar ávísanir sem þessar eiga að minni hyggju að vera undanskildar stimpilgjaldi eins og tjekkarnir, eins og gert er alstaðar annarsstaðar. (Fjrh.: Ekki alstaðar). Það er rjett, ekki í Englandi, en þar eru tjekkar líka stimplaðir.

Rjett álít jeg það að íþyngja sem minst þeim er vilja líftryggja sig og tryggja eigur sínar. Nóg er að láta stimpla aðalskírteinið; kvittanirnar eiga því helst að vera stimpilfrjálsar. Á þetta legg jeg þó minni áherslu heldur en á hitt, að sparisjóðsbækur sjeu undanskildar stimpilgjaldi. Hvergi er venja að stimpla þær, mjer vitanlega.