07.03.1921
Neðri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

45. mál, Sogsfossarnir

Jón Þorláksson:

Jeg leyfi mjer að þakka hæstv. stjórn fyrir að hafa borið þetta frv. fram hjer í þinginu. Jeg sá það í skránni yfir stjórnarfrv., að það stæði til, að þetta frv. kæmi fram, annars mundi jeg sjálfur hafa borið fram samskonar frv. Þetta frv. snertir, að mínu viti, langmesta framfaramálið, sem koma mun á dagskrá með þjóðinni í okkar tíð. Og þótt nú horfi illa fyrir atvinnuvegum þessa lands, og það svo mjög, að ekki er útlit fyrir, að hægt verði að framkvæma það framfaramál, sem um ræðir í frv., að svo stöddu, þá er jeg þess þó fullviss, að öllum þorra þjóðarinnar mundi verða það skíma í þessu dimmviðri, ef þeir sæu, að þingið hefði þó einlægan vilja á því að hugsa fyrir endurbótum og endurreisn atvinnuveganna, slíkum, sem frv. þetta fer fram á, hvenær sem úr rætist.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um málið, en vona, að deildin taki því vel og að því verði vísað til nefndar.