18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

45. mál, Sogsfossarnir

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Mjer kom dálítið undarlega fyrir í nál. minni hl. sú „clausula“ um aðstandendur þessa frv., að þeir væru hlyntir fossafjelaginu „Ísland“, enda mætti sjá það á orðalagi þess. Nú er jeg hinn eini maður, sem bæði er viðriðinn frv. og fossafjelagið. Jeg hefi nefnilega verið í stjórn fjelagsins, þótt jeg sje það ekki nú. Nú er það líka vitanlega, að jeg á ekki staf í þessu frv., þótt jeg hafi flutt það inn í þingið, og jeg hefi því alls engin áhrif getað á það haft, hvernig það er orðað. Í öðru lagi furðaði mig á því, að haft væri á móti frv. af þessum ástæðum, eins og það væri nokkuð ódæði, að hafa verið riðinn við fossafjelagið „Ísland“. Jeg álít mig hvorki lakari mann fyrir það nje ver staddan við atkvgr. um málið. Og loks skil jeg ekki af hverju fossafjelagið „Ísland“ er háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) slíkur þyrnir í auga, því að meðan ekki er ákveðið neitt um það, hvort skuli vera ríkisvirkjun eða sjerleyfi veitt, kemur fjelagið þessu máli ekkert við.

Jeg hefði annars ekkert verulegt um þetta mál að segja, því að háttv. frsm. (J. Þ.), sem er málinu kunnari en jeg, mun halda uppi nægilegum vörnum fyrir það, og jeg hefi engu við að bæta. Mjer finst sjálfsagður hlutur, að rjettara sje, þegar um svo víðtæka heimild er að ræða sem hjer er, að hún sje sett í lög, heldur en að láta sitja við þál. frá 1919, eins og minni hl. gerir, þótt ef til vill væri hægt að notast við hana.