12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

45. mál, Sogsfossarnir

Magnús Kristjánsson:

Mjer þykir lakara, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) skuli ekki vera við, enda þótt jeg búist ekki við að leggja mikið til þessa máls. Jeg get lýst því yfir, að jeg er á móti frv., og þingsályktunartill. get jeg ekki fylgt. Mjer finst hvorttveggja þetta vera hálfgerður leikur, svo jeg viðhafi ekki stærri orð.

Þingsályktunin frá 1919 er enn í fullu gildi og ekki framkvæmd nema að nokkru leyti, það er að segja, að svör hafa komið frá fossafjelaginu Ísland, sem hljóða á þá leið, að fjelagið sje fáanlegt til þess að selja ríkinu öll vatnsrjettindi, sem það telur sig hafa hjer á landi; en það var ekki þetta, sem hæstv. stjórn var falið að leita eftir, heldur einungis um rjettindi fjelagsins til Sogsfossanna.

Nú vantar að fá vissu fyrir því, hvort fjelagið vill selja rjettindi þau, er það telur sig eiga í þessu ákveðna fallvatni. Og það er nauðsynlegt að fá það fram, og þá með hvaða kjörum það á að vera.

En svo er annað, sem jeg vildi gerast svo djarfur að minnast á, og það er það, að jeg tel það blátt áfram barnaskap að hugsa sem svo, að þingið geti aflað fjár til þess að hrinda þessu fyrirtæki í framkvæmd nú á þessum tímum, þegar hvergi sjer út úr fjármálaöngþveiti ríkisins.

Jeg hefi áður verið því fylgjandi, að sjerleyfi yrði veitt til stóriðju, og held því fram enn, að eigi nokkuð að gera eða framkvæma í þessa átt, þá verði það að vera í fjelagsskap að þessi vatnsorka verði hagnýtt. Mjer finst málið horfa svo við, að líkur sjeu til þess, að fossafjelagið Ísland, sem á rjettindi við Sogið, fáist til að hagnýta þann rjett sinn í fjelagsskap við ríkið, og leggi ef til vill fram mikinn hluta þess fjár, sem þarf til framkvæmdanna. Mjer finst þetta svo mikilsvert atriði, að það beri því bráða nauðsyn til að athuga, hvort það geti ekki komið til mála. Það er ekki svo mikið, sem þetta fjelag á umráð yfir, að af því geti nokkur veruleg hætta stafað fyrir okkur.

Þess vegna finst mjer frv. og hin nýja þingsályktunartill. þýðingarlaus, enda finst mjer óviðfeldið, að rannsókn þessi sje eingöngu gerð á kostnað ríkisins. Varla að búast við framkvæmdum málsins, eigi ríkið eitt að sjá um þær og kosta.

Jeg vil svo ekki orðlengja meira um þetta, en vona hins vegar, að háttv. deild skilji, hvað fyrir mjer vakir, að jeg vil ekki útiloka það, að erlent fjármagn verði notað til framkvæmdanna, ef við eigum þess einhvern kost, með nauðsynlegum tryggingarskilyrðum.