12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

45. mál, Sogsfossarnir

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Mjer virtist það liggja í orðum háttv frsm. (J. Þ.) og einnig hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að minni hluti nefndarinnar væri með ríkisrekstri eingöngu, án aðstoðar eða samvinnu við erlend fjelög eða fjármagn. Jeg held, að jeg hafi ekki gefið neitt tilefni til þessa. Þvert á móti er í nefndarálitinu gert ráð fyrir ríkisrekstri í fjelagi við einstaklinga, og hefi jeg alls ekki hugsað það æskilegt, að ríkið væri eitt um hituna. En jeg vil, að ríkið hafi hjer ávalt yfirtökin og sje hvarvetna húsbóndinn í þessum málum.

Það ætti ekki mjög að fæla menn frá þessari virkjun, að kostnaðurinn yrði gífurlega mikill, ekki síst ef samfara því væru arðsöm iðnaðarfyrirtæki. Þó virkjuð yrðu um 60 þús. hestafla, þá býst jeg naumast við, að kostnaðurinn mundi fara langt fram úr 30 miljónum króna, og byggi jeg þá á sexföldum kostnaði við það, sem mestur hefir verið í Noregi, eða 600 kr. fyrir hestafl. Auðvitað fer það mikið eftir því, hvernig aðstaðan er við Sogið til virkjunarinnar, en sje gert ráð fyrir, að virkjunin verði við efri hluta Sogsins og miðað við 200 kr. á hestafl, svo sem algengt var fyrir stríðið, þá er þar um 3 miljónir að ræða til virkjunar og þá miðað við þrefalt lægra verð en í hinu tilfellinu, 200 kr. í stað 600 kr., en á hagkvæmasta staðnum í Noregi hefir líka verið virkjað fyrir stríðið hestafl hvert fyrir 100 kr. Auðvitað verður ekkert um þetta sagt með neinni vissu fyr en rannsókn er um garð gengin, og hún á að fara fram eftir þál. frá 1919.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði, að danskir fjármálamenn mundu um það spurðir, hversu arðvænlegt þetta fyrirtæki væri, ef við leituðum eftir láni hjá öðrum þjóðum. (J. Þ: Jeg sagði, að það hefði verið gert). Já, og mundi þess vegna einnig verða gert framvegis. En jeg held, að til slíks muni ekki koma, því aðstæður eru nú mjög breyttar frá því, þegar Ísland var talið hluti úr danska ríkinu. (B. J. : Hvenær var það?).

Jeg held jeg sjái svo ekki ástæðu til að svara fleiru.