12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

45. mál, Sogsfossarnir

Forsætisráðherra (J. M.):

Það eru örfá orð út af athugasemdum háttv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.). Jeg held, að jeg hafi ekki sagt eitt orð í þá átt, að háttv. minni hluti hefði þá meiningu, að ekki mættum við vera í sambandi við útlent fjármagn. Það hlýtur því að vera einhver annar en jeg, sem þetta hefir talað.

Jeg er alveg sammála háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) um það, að ekki sje svo sjerlega djarft að hugsa til að virkja þessa fossa í náinni framtíð, enda þótt jeg sje hins vegar heldur á því, að kostnaðurinn verði töluvert meiri en hann nefndi.

Um það, hvort aðeins eigi að virkja efra fallvatnið eða neðra, eða þau bæði, get jeg ekkert um sagt fyr en að afstaðinni rannsókn.

Að vísu hefir það mál verið borið undir sænsk-ameríkanskan verkfræðing, sem mikið hefir kynt sjer slík mál, og taldi hann, að rjettara mundi að hugsa aðeins um efra fallvatnið í bráð. Hygg jeg að hann hafi litið svo á, að ekki vœri óhugsandi að fá fje til þessa.

Jeg held því, að það væri mjög æskilegt, að háttv. deild sýndi nú áhuga á því að láta. rannsókn fara fram strax, til þess að sjá hvernig virkjun þessara fossa verði best fyrirkomið, og að hve miklu leyti skuli virkja þá. Og eftir þeim upplýsingum, sem háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir nú gefið, þá ætti ekki að þurfa neina samninga við fossafjelagið ,,Ísland“ til þess, að við gætum virkjað efra fallvatnið.

Ef til vill er því rjettast að samþ. þetta frv. og einnig fyrri hluta þál.till.