17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

45. mál, Sogsfossarnir

Eiríkur Einarsson:

Við síðustu umr. þessa máls greiddi jeg atkvæði á móti frv. og gerði grein fyrir því. Þá var þingsályktunartill. um sama mál á dagskrá, sem mjer þótti að ýmsu leyti fara lengra en frv. og verðskuldaði fremur samþykki. Þessi till. hefir nú verið tekin af dagskrá, og þykist jeg vita, hvaða örlög henni eru fyrirhuguð, svo þess vegna mun jeg greiða atkv. með frv. nú, því fyrir mjer er það mikilsvirði, að rannsókn Sogsfossanna til virkjunar fari fram sem fyrst, og þá ekki síður járnbrautarrannsóknin.

Jeg vænti þó, að þál.till. eigi fyrir sjer að ná framgangi, ef ekki á þessu þingi, þá á næsta, því að eins og jeg hefi tekið fram, hefir hún ýmislegt það í sjer fólgið, er jeg tel heppilegra framkvæmdum þessa máls. Í þessu máli er allur varinn góður, eins og í öðrum málum, og þykist jeg vita það verði seint að við göngum svo frá þessu máli, að of tryggilegt sje. Um brtt. háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) vil jeg geta þess, að jeg mun greiða þeim atkvæði. Þær stefna að ýmsu leyti í sömu átt og jeg gerði grein fyrir um daginn, er jeg mintist á þál.till., að ábyrgðin með rannsókninni yrði látin hvíla á herðum sjálfrar ríkisstjórnarinnar.

Eins og hæstv. atvrh. (P. J.) tók fram, á stjórnin að hafa óbundnar hendur um „að gera eða láta gera mælingar“. 2. gr. frv. dregur úr ábyrgð stjórnarinnar, en úr ábyrgð þessari er þó ekki vert að draga. Samkvæmt upphafi 1. gr. frv. hefir stjórnin svo frjálsar hendur sem henni er nauðsyn á.

En hvort vera skuli ríkisvirkjun eða ekki, læt jeg ósagt um að sinni, og læt það bíða átekta. Það er ótímabært nú að gera till. um slíkt.

Einmitt þetta, að stjórnin beiti sjer fyrir rannsókninni, verður til þess, að bein afskifti stjórnarinnar ættu að gefa málinu þann tilstyrk, að sjerstaklega væri hugsað um þarfir landsmanna, þegar til virkjunarinnar kæmi. Því er það nauðsynlegt, að stjórnin hafi hönd í bagga með og beri fulla ábyrgð á öllu saman, enda er þetta alstaðar viðurkent sem sjálfsagt í þeim löndum, sem þegar hafa hafist handa í þessu efni. Þetta er játað af fróðustu mönnum Norðmanna og álitið mikilsverðasta atriðið í öllum undirbúningi vatnsvirkjunarmála, að alt sje fyrst og fremst miðað við þarfir almennings og ríkisins.