18.02.1921
Efri deild: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

1. mál, hlutafélög

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg skal ekki halda langa ræðu. — Frv. þetta er fram komið samkvæmt þingsályktun frá 1914, og hafa þeir unnið að því prófessorarnir Magnús Jónsson og Einar Arnórsson, og hefir hinn síðarnefndi komið því til fullnustu í þann búning, sem það hefir nú, og samið athugasemdir við það.

Jeg hefi eiginlega engu að bæta við það, sem þar er sagt. Stjórnin álítur fulla nauðsyn slíkra laga, eftir því sem stofnun hlutafjelaga með takmarkaðri ábyrgð hefir aukast hjer á landi undanfarin ár. Mín persónulega skoðun er, að þótt óhjákvæmilegt sje nú orðið, til að koma á fót ýmsum þjóðnytjafyrirtækjum, að stofna til þess hlutafjelög með takmarkaðri ábyrgð, þá sje sú stefna í heiminum eigi að síður mjög viðsjárverð, að rekstur framleiðslu og verslunar dragist æ meir og meir undir slíkar ópersónulegar gróðamaskínur, sem eftir eðli sínu fara stækkandi, grípa meira og meira hver í aðra, verða að heljarbáknum og mynda hringa. En þessi skoðun dregur ekkert úr því, að lög sjeu sett um þessar stofnanir, heldur jafnvel þvert á móti.