11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

1. mál, hlutafélög

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Eins og háttv. þm. er kunnugt og tekið er fram í greinargerðinni fyrir stjórnarfrv., þá er þetta frv. samið af tveim prófessorum við háskólann fyrir hönd stjórnarinnar og samkvæmt áskorun Alþingis 1914.

Það hefir verið samið með hliðsjón af samskonar lögum á Norðurlöndum og lagað eftir því, sem við átti hjer.

Eins og við má búast er jeg leikmaður á þessu sviði, og hefi því ekki sjerlega mikið vit á þessu máli. Jeg hefi heldur ekki neina reynslu um starfsemi slíkra fjelaga, því að jeg hefi ekki verið riðinn við stjórn hlutafjelaga eða náin viðskifti við þau, og get því ekki dæmt um sumt það, sem háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) tók fram.

En út af ummælum háttv. sama þm. (J. Þ.) um frv. um samvinnufjelög á dögunum, að í því væri ekki gerður nægilegur greinarmunur á samvinnufjelögum og öðrum fjelögum, vil jeg við þetta tækifæri benda á, að þetta frv. bætir mikið úr skák, hafi nokkuð verið vafasamt um slíkt í hinu. Jeg á þar einkum við ákvæðin í 1. gr., þar sem skilgreiningin á hlutafjélögum er sett fram, það er að segja hlutafjelögum með takmarkaðri ábyrgð, sem þessi lög eru sett fyrir.

Í 1. málsgr. 1. gr. segir svo: .... „enda ábyrgist enginn þeirra skuldir fjelagsins persónulega, heldur allir saman einungis með eignum þess“.

Það er að vísu svo í frv. um samvinnufjelög, sem ganga undir heitinu hlutafjelög, að það er ekki altaf sameiginleg ábyrgð í þessum skilningi, og að þau hafa ekki ætíð sjálfskuldarábyrgð út í æsar. T. d. mætti telja Sláturfjelag Suðurlands fjelag með takmarkaðri ábyrgð. En það er ætíð í reyndinni nokkur persónuleg ábyrgð, þó að það skipulag sje ekki fastbundið enn í þeim, nema í öllum kaupfjelögum, að kalla má.

2. málsgr. í 1. gr. hljóðar svo, og vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa hana upp:

,,Þó taka lög þessi eigi til fjelaga með takmarkaðri ábyrgð, sem starfa í þeim tilgangi að útvega fjelögum sínum hluti til notkunar eða koma afurðum þeirra í verð, eða bæta með öðrum hætti hag þeirra, enda sje starfsemi fjelagsins takmörkuð við fjelaga eina og arði skift með þeim eftir hlutdeild þeirra í veltu fjelagsins einvörðungu“.

Þessi grein skýrir enn betur muninn á samvinnufjelögum rjett nefndum og öðrum fjelögum. Nú munu samt vera til fjelög, eða gætu komið upp, sem eru alveg á takmörkunum milli hlutafjelaga með takmarkaðri ábyrgð og samvinnufjelaga. En það verður ekki hægt í byrjun að girða fyrir allan vafa, en það kemur þá til dómstólanna að skýra lögin, og treysti jeg þeim vel til þess. Það er svo víðast, að dómstólarnir eiga ekki lítinn þátt í löggjöfinni, með skýringum sínum og dómum. Vona jeg, að þetta lagist og skýrist til hins betra, með aðstoð dómstólanna. –Þetta var nú aðeins útúrdúr.

Viðvíkjandi þeim brtt., sem fyrir liggja, er ekki mikið að segja. Það eru þá helst brtt. háttv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) á þskj. 358. Mjer sýnist þær ekki muni hafa mikla verkun, nema 2. liðurinn við 10. gr. um, að það skuli ekki heimta meira en innborgað af hlutafje, þegar fjelögin taka til starfa. Mjer þykir tillagan fara fulllangt, þó jeg líti svo á, að það kunni að vera heldur freklega farið eftir ákvæði frumvarpsins. Jeg hygg, að það hafi borið við, að fjelög hjer á landi hafi tekið til starfa of fljótt, eða áður en nægilegt af hinu ákveðna hlutafje var innborgað.

Þá er stærsta brtt. við 31. gr., um það, að fella niður ákvæðið um takmörkun á atkvæðisrjettinum. Jeg játa það, að þessi takmörkun getur komið sjer illa í sumum fjelögum, en þó nauðsynleg í öðrum, og það jafnvel meiri en þetta. En mjer sýnist fulllangt farið, að kippa þessu ákvæði alveg burt.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) tók þetta fram, það sem athugavert er við ákvæðið, en við erum þó ekki á sama máli. því að jeg álít það varhugavert í hlutafjelögum, að atkvæðamagnið geti safnast á eina hönd, jafnvel meira en að helmingi. Þetta atriði er samt ekki í stjórnarfrv., en jeg vildi þó láta þá skoðun mína í ljós, að varhugavert væri að sleppa því til fulls.