11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

1. mál, hlutafélög

Gunnar Sigurðsson:

Jeg verð að segja, að mjer ofbauð frv., eins og það kom frá stjórninni. Það hefir lengi verið venja hjer á landi, að útlend, sjerstaklega dönsk, lög hafa verið þýdd sama sem óbreytt og gerð að lögum fyrir Íslendinga til eftirbreytni. Þetta hefir oft verið gert, án þess að þess væri gætt, hvort lögin ættu við íslenska staðháttu og önnur íslensk lög eða ekki. Nú mun að vísu hafa verið fenginn íslenskur lögfræðingur til þess að undirbúa frumvarpið, en ekki veit jeg til, að frumvarpið hafi verið borið undir þá menn, sem helst eiga við þau að búa. Undirbúningur hefir víst verið lítill og stjórnin farið eftir venju, og lagt útlend lög til grundvallar íslensku lögunum. Sennilega hefir lögfræðingur verið fenginn til að þýða útlend lög, en lögin hafa ekki átt við staðhætti hjer.

Það er alveg rjett, sem háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) benti á, að í öðrum löndum munu fjelagsmenn oftast vera í sama bæ, en hjer eru þeir dreifðir út um alt land. Má þar til nefna bátaútgerð. Það getur því verið mjög óþægilegt að kalla saman fundi, eins og ákvæði þessa frv. eru um það atriði.

Jeg álít það nauðsynlegt, að sú stefna sje tekin upp að haga lögum sem best eftir staðháttum landsins, og vanda yfir höfuð betur til löggjafarinnar en hingað til hefir tíðkast. Það er margt í þessu frv., sem þarf að athugast betur. Það eru því vinsamleg tilmæli mín til háttv. stjórnar, að hún láti þetta frv. bíða. Viðskifti eru í því strandi nú, að ekki er líklegt að mikið verði stofnað af hlutafjelögum í náinni framtíð, og lögin því ekki bráðnauðsynleg.

Hæstv. atvrh. (P. J.) tók fram, að hann hefði ekki fyllilega vit á þessu máli. Jeg get vel skilið það, þótt hann að vísu hafi fengist talsvert við aðra skylda tegund fjelaga, samvinnufjelög. Hann tók enn fremur fram, að frv. gæti lagast í höndum dómstólanna. Þá skoðun hans skil jeg ekki; dómstólarnir eiga að dæma eftir lögunum, en ekki breyta þeim. Þess vegna er áríðandi að þau sjeu skýr og greinileg. Því eins og hæstv. atvrh. (P. J.) mun vita, er löggjafarvaldið hjá Alþingi og konungi, en dómsvaldið hjá dómendum. Slíkri stefnu get jeg alls ekki verið samþykkur. Lögin eiga að vera skýr, og það er alls ekki hlutverk dómstólanna að lagfæra þau.

Það liggur nóg af frv. fyrir þessu þingi, þó þetta dragist. Menn geta þá athugað það betur og reynt að koma því í samræmi við íslenska staðhætti.

Annars ætla jeg ekki að fara út í einst. brtt.