11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

1. mál, hlutafélög

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) komst svo að orði um undirbúning þessa frv., að stjórnin hefði fengið færan mann til að þýða lögin úr dönsku. Þetta er fjarri sanni, samkvæmt því, sem jeg hefi gert grein fyrir um undirbúninginn. Og það er þess utan óviðeigandi, þegar stjórnin fær góðan og nafnkunnan lögfræðing til lagasmíða, þá sje það sama sem einhver og einhver.

Jeg hefi ekki kynt mjer sænsku lögin frá 1917 sjálf, en hefi þó lesið ritling eftir danskan lögfræðing um þau. Og jeg þori að fullyrða, að eftir lýsingunni á þeim í þeirri bók, er þetta frv. mun skýrara í ýmsum atriðum og ákveðnara. Þessi höfundur telur dönsku lögin býsna óákveðin og óskýr, en telur þó, að dómstólarnir muni geta skýrt þau í heppilega átt, svo að þau nýtist sæmilega.

Háttv. þm. (Gunn. S.) gat þess, að sams konar lög á Norðurlöndum líktust mjög hver öðrum. Þó væru þau nokkuð frábrigðileg, því að það yrði að haga þeim nokkuð eftir staðháttum. Þetta hefir verið gert hjer af prófessor Einari Arnórssyni. En hvort honum hefir tekist það fyllilega. þori jeg ekki að dæma um. Jeg hefi ekki athugað málið svo vel. En það er ekki hægt að ásaka stjórnina fyrir að ekki hafi verið reynt að vanda til undirbúningsins.

Hvað því viðvíkur, að stjórnin taki frv. aftur, þá geng jeg ekki inn á það. því þetta er búið að bíða síðan 1914. Nú hvílir svo margt á stjórninni, að ekki er hægt að ásaka hana fyrir það, þó hún vilji hrinda af sjer einhverju. Og sumt af þessum frv. búið að bíða síðan 1915 og 1916.

Ef háttv. deild vísar þessu til stjórnarinnar aftur, er það engin móðgun fyrir hana eða mig. Þingið er sjálfrátt um það. Stjórnin hefir að þessu sinni komið með þetta frv. einungis fyrir áskorun þingsins. Annars hygg jeg, að rjettast sje að láta frv. hlaupa af stokkunum nú sem lög, og láta reynsluna um það benda á nauðsynlegar breytingar.