20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

1. mál, hlutafélög

Gunnar Sigurðsson:

Jeg var eini maðurinn um daginn, sem vildi láta vísa þessu frv. til stjórnarinnar, og mjer hefir ekki snúist hugur síðan. Jeg held, að það sje löngu nóg komið af bráðónýtum pappírslögum, sem fáir eða engir fara eftir, bæði frá þessu þingi og öðrum undanförnum. Hlýtur það að verða verksvið næstu þinga að skera niður að meira eða minna leyti slík óþarfalög.

Jeg hefi þegar bent á það áður, að á þessum lögum hljóti að koma fram ljósir gallar, og þarf jeg ekki að endurtaka það hjer.

Hæstv. atvrh. (P. J.) vill láta lögin reyna sig, og breyta þeim síðan, ef þörf þykir. En jeg tel æskilegast, að þessi lög, eins og líka öll önnur lög, sjeu þannig undirbúin, að ekki þurfi að breyta þeim þegar í stað. En það vantar mikið á, að slíkur undirbúningur sje fyrir hendi á þessum lögum nú.

Jeg endurtek því eindregið þá tillögu mína, að málinu verði nú vísað til stjórnarinnar.