20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

1. mál, hlutafélög

Einar Þorgilsson:

Jeg heyri, að þetta muni ætla að verða talsvert hitamál hjer í háttv. deild. En úr því farið er að ræða málið, þá get jeg ekki látið hjá líða að fara um það fáeinum orðum, enda þótt jeg ekki hafi miklu við að bæta það, sem jeg hefi sagt um málið við 2. umræðu.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) segir þetta ákvæði úr sænskum lögum tekið, og eigi það ákvæði þar ekki við, nema um vissa tegund hlutafjelaga.

Mjer er nú um það kunnugt, að þessi ákvæði hafa gilt hjá sænskum í 10–12 ár. Og úr því þau hafa þótt nothæf þar svo lengi, þá ættu þau einnig að geta verið það hjer.

Að þetta ákvæði sje þvingandi og geri löggjöfina að fjárráðamanni einstaklingsins, held jeg að ekki sje neitt sjerstakt. Slíkt má segja um mörg lög.

En jeg tel að þetta ákvæði einmitt girði fyrir, að ofríki einstakra manna geti orðið öðrum til hnekkis. Mjer virðist að sá, sem eignast marga hluti í fjelagi, geti annars beitt valdi sínu til óhags öðrum fjelagsmönnum, ef hann á að hafa atkvæði fyrir hvern hlut, hversu marga sem hann á.

Það hefir verið á það bent áður af þessum hv. þm., að þetta ákvæði gæti fælt menn frá að taka mikla hlutdeild í slíku hlutafjelagi. Um það skal jeg ekkert segja. En ef menn vilja taka hluti í fjelagi, bara til þess að verða þar einvaldir, þá get jeg ekki kallað það rjetta hugsjón í fjelagsskap.

Jeg hefi því fylstu ástæðu til þess að ætla, að einmitt með þessu ákvæði geti fjelagsskapurinn þrifist betur en ella.

Jeg get einnig bent á það í þessu sambandi, að þegar ríkissjóður hluttók Eimskipafjelag Íslands, þá var það ákveðið, að ríkið skyldi ekki hafa atkvæði eftir hlutamagni.

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) sagði, að þingið hefði hrúgað upp pappírslögum, sem enginn færi eftir. Þetta finst mjer nokkuð djarft sagt; því þó öll lög sjeu ekki vel haldin í þessu landi, þá býst jeg ekki við, að hið háa Alþingi vilji viðurkenna það sína sök. Og jeg held, að um þessi lög megi áreiðanlega segja, að þau sjeu ekki pappírslög, enda þótt það kunni að einhverju leyti mega fara í kring um ákvæði þeirra, ef vilji er með. Slíkt má segja um öll lög.