07.03.1921
Neðri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

16. mál, sala á hrossum

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Hv. frsm. (J. S.) sýndi mjer till. nefndarinnar og álit, áður en því var útbýtt, og hafði jeg þá, eftir fljótan yfirlestur. ekkert sjerstakt við það að athuga. Við nánari athugun hefi jeg þó komist að því, að dálítill vafi geti leikið á því, hvernig það takist, eða reynist í framkvæmdinni, að velti á vilja hrossaeigendanna hvort stjórnin tekur að sjer útflutninginn eða eigi. Það gæti komið fyrir, að atkvæði sýslunefndanna væru ýmsum mismunandi skilyrðum bundin úr hrossahjeruðunum, og gæti þá verið erfitt fyrir stjórnina að ákvarða sig eftir því. Vildi jeg því mega beina því til hv. nefndar, að íhuga það, hvernig ætlast væri til þess, að stjórnin hagaði sjer í slíkum tilfellum, eða hvernig heppilegt væri að bera málið undir sýslunefndir, svo að hjá slíkum vafa yrði komist.