01.04.1921
Efri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

76. mál, bæjarstjórn á Akureyri

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg er háttv. fjhn. sammála um það, að finna þurfi fasta tekjustofna, ekki einungis handa bæjar- og sveitarsjóðum, heldur einnig handa sýslusjóðum. En mjer líkar það illa, að verið sje að hringla með löggjöf um þetta ár eftir ár. Fyrir þessu þingi liggja nú skattafrv. fyrir 3 kaupstaði, og stefnir hvert í sína átt. Þetta kann jeg illa við. Jeg vildi, að þetta væri gaumgæfilega athugað, og samræmt síðan. En það er of mikið verk handa þingnefnd að gera. Stjórnin á að gera þetta, og þá jafnframt leita álits hlutaðeigenda, eins og hv. nefnd hefir bent á. Og þetta ætti ekki að þurfa að taka mjög langan tíma. Tel jeg því óráðlegt að afgreiða nein lög um þetta á þessu þingi, þar sem búast mætti við, að þeim yrði að breyta ef til vill þegar á næsta þingi.

Fyrir því leyfi jeg mjer að bera fram svo hljóðandi tillögu til rökstuddrar dagskrár:

„Í því trausti, að stjórnin, að fengnum tillögum sýslunefnda og bœjarstjórna, taki til íhugunar ákvœðin um skattaálöguvald sveitastjórna, samrœmi þau í kaupstöðunum og komi, svo fljótt, sem auðið er, fram með frv. til laga um það og fasta tekjustofna handa sveitarsjóðum, sýslusjóðum og bœjarsjóðum, — tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Jeg vil aðeins bæta því við, að jeg hygg, að fjhn. Nd., sem hefir til meðferðar frv. um breyting á bæjarstjórnarlögum Siglufjarðar, muni koma fram með dagskrá í svipaða átt í því máli.