12.03.1921
Neðri deild: 21. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

81. mál, sala á Upsum

Flm. (Stefán Stefánsson):

Eins og ástæðurnar fyrir frv. bera með sjer, þá liggja þau rök til þessa frv., að hreppsnefndinni í Svarfdælahreppi hefir borist áskorun frá þorpsbúum í Dalvík, að hlutast til um, að þeir gætu fengið land til mótaks og beitiland fyrir skepnur sínar á hagstæðum stað, eða sem næst sjer. Hreppsnefndin brást þegar vel við og leitaði fyrir sjer um jörð, sem fullnægði sem best þessari sjálfsögðu eða eðlilegu kröfu, sneri sjer því til ábúandans á Upsum í Svarfaðardal með þá málaleitun, að hann vildi gefa hreppnum eftir ábúðar og kauparjett á jörðinni, því að þar er landrými mikið og mótak gott.

Ábúandinn tók þessu erindi nefndarinnar mjög vel og viðurkendi nauðsynina á því, að þorpið fengi þessar landsnytjar; hefir því eftirlátið hreppnum kauparjett á jörðinni, og sömuleiðis gefið frá sjer rjett til ábúðarinnar, með það fyrir augum, að jörðin komi að meira eða minna leyti Dalvíkingum til nota. Hreppsnefndin hefir því skrifað mjer og mælst til, að jeg flytti þetta mál hjer í þinginu.

Jeg skal svo ekki fara mörgum orðum um þá nauðsyn, sem hjer er fyrir hendi, en vildi aðeins geta þess, að eiginlega mega teljast fá ár síðan Dalvík fór að byggjast að nokkrum verulegum mun, en nú er þar orðið allmyndarlegt þorp. Um 30–35 grasbýli og þurrabúðir, og mannfjöldi að jeg hygg rúm 300. Það er því sjáanlegt, að

þessum mannfjölda er nauðsyn á því, sem fram á er farið í frv.

Þessi skjóti vöxtur þorpsins hlýtur að liggja aðallega í því tvennu, að þorpið er mjög vel sett til veiðiskapar eða sjávarútvegs, og svo einnig því, að inn af Dalvík liggur mjög góð sveit og fjölmenn. Það er því eðlilegt og má telja víst, að þar aukist bygging, langt framar því, sem enn er.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en óska að frv., að lokinni umræðu, verði vísað til landbúnaðarnefndar.