06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

81. mál, sala á Upsum

Flm. (Stefán Stefánsson):

Jeg sje ekki ástæðu til annars en að málið fái þegar fram að ganga. Það hefir gengið gegn um 3 umr. hjer í deildinni, og því undarlegt, að hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) skuli nú fyrst hafa tekið það í höfuðið, að nauðsynlegt sje að koma með brtt. við það.

En jeg skal taka það fram, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að það eru engar líkur til þess, að jörðin verði seld nokkrum einstökum manni eða að hún lendi í hendur braskara. Frv. þetta er fram komið fyrir ósk Dalvíkurbúa, sem þurfa nauðsynlega að öðlast fullan notarjett til mótaks, beitilands og jafnvel þess annars, sem jörðin hefir að bjóða. Og þetta getur ekki breytst, nema með því eina móti, að þorpið leggist niður, en fyrir því eru ekki nokkrar minstu líkur, ja, jeg vil segja, alla þá framtíð, sem menn nú geta gert sjer eiginlega nokkra hugmynd um eða grein fyrir.

Hins vegar eru mjög miklar líkur til þess, að þorpið stækki, og þá veitir því sannarlega ekki af þeim fríðindum, sem jörðin hefir í sjer. Þess vegna finst mjer þetta hálfgerðar firrur hjá háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), og að þetta ákvæði hans komi aldrei að liði, þó að það verði sett inn í lögin.

Vil jeg því treysta því enn, að hv. deildarmenn greiði frv. atkv. sín eins og það liggur nú fyrir.