07.03.1921
Neðri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

65. mál, biskupskosning

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Það er öðru nær en að jeg sje á móti því, að frv. verði sett í nefnd. Hvað viðvíkur ummælum hæstv. forsrh. (J. M.) þá er jeg ekki mótfallinn hans skoðun á málinu. Sama er að segja um háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.), að þó að hann felli sig betur við frv. eins og synodus hafði það, þá er það fjarri mjer að gera það að kappsmáli, hvor leiðin er valin. Ef mönnum finst frv. óglögt, þá skal jeg geta þess, eins og jeg tók fram áðan, að frv. er líkt orðað eins og lög Norðmanna og Svía um sama efni.

Það er alls ekki tilætlunin, að þetta verði hlutfallskosning, heldur, að sá af prestunum, er tilnefndir eru, sem fær flest atkvæðin, sje rjett kosinn biskup. Eftir 4. gr. er ætlast til, að kirkjustjórnin setji nánari reglur um kosninguna.

Mjer datt í hug, að hún setti reglur um, hvernig ætti að tilnefna þessa 3 menn í röð. Í Noregi og Svíþjóð eru þeir merktir 1, 2, 3, og sá, sem er fyrstur á flestum seðlunum, þá kosinn biskup. Annars alveg eins, hver sem fær flest atkvæði, þó hann sje ekki fyrstur á flestum seðlum. Það má, hvort sem menn heldur vilja, láta stjórnarráðið eða kirkjustjórnina setja reglumar, bara að þeim verði haldið innan rammans. En því var það, að engar reglur voru settar í frv., að það hefði þá orðið lengra, og þess vegna ætlast til, að kirkjustjórnin gerði það.

Það má vel vera, að kosningin fari betur úr hendi, ef hún væri framkvæmd af kjörnefnd. Jeg skal ekki um það deila.

Jeg vona því, að háttv. deild vísi frv. til 2. umr. og til nefndar, og þá helst til allsherjarnefndar, sem hefir flest samskonar mál til meðferðar.