18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

65. mál, biskupskosning

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Frumvarp þetta hefir engum breytingum tekið í allsherjarnefnd, og er því óþarfi að fjölyrða um það, en skírskota aðeins til greinargerðarinnar á þskj. 77. Meiri hluta nefndarinnar þótti rjett að lofa frv. að ganga gegn um deildina, þar sem um enga breytingu var að ræða, er kæmi í bág við það samband, er nú er millum ríkis og kirkju, en hitt fanst henni sanngjarnt og eðlilegt, að andlega stjettin hefði íhlutunarrjett um veitingu biskupsembættis, því hana skifti það eigi svo litlu máli, hver það sæti skipar og hvort hann nýtur trausts hennar eður eigi, því undir því er góð samvinna komin. Nefndinni fanst að frv. mundi tryggja þetta betur en núgildandi löggjöf gerir, þar eð landsstjórnin ræður því nú einvörðungu, hver sætið skipar, og gæti það því vel fyrir komið, að sú stjórn, sem biskupsembættið veitti, væri áhugalítil um andleg mál, eða jafnvel stæði á öndverðum meið við meiri hluta prestastjettarinnar, og er þá auðsætt, hver sundrung gæti af hlotist millum andlegu stjettarinnar og biskups.

Nefndinni sýndist ekki rjett að koma fram með brtt. við frv. Raunar komu við 1. umr. fram raddir um það, að sumt mætti betur fara, og enda þótt þær breytingar hafi við einhver rök að styðjast, þá fanst samt nefndinni ekki ástæða til að taka þær til greina.

Fjölyrði jeg svo ekki meira um frv. að sinni, en vonast til, að háttv. deild afgreiði frv. til Ed. — Málið er áhugamál margra andlegrar stjettar manna, og þetta fyrirkomulag er þegar komið á hjá nágrannaþjóðunum og er á döfinni í Danmörku.