18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

65. mál, biskupskosning

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) segir, að jeg hafi misskilið sig. Mjer þykir það undarlegt, því að jeg skrifaði niður hjá mjer ummæli hans. Út af þessu tók jeg fram í fyrri ræðu minni, að vitnisburður og reynsla sögu vorrar styddi ekki þessa sögu hans, heldur miklu fremur það gagnstæða, að prestarnir hefðu verið framar öðrum landslýð. Annars þýðir ekki að stæla út af þessu.

Jeg er þakklátur háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) fyrir meðmæli þau, sem hann gaf frv. Viðvíkjandi því, sem hann sagði um nýjar skoðanir, þá er jeg honum sammála um það, að það sje gott, að nýjar skoðanir komi upp meðal prestastjettarinnar. Skoðanamunur vekur áhuga, en þar, sem hver húkir í sínu horni, er hætt við, að doði og deyfð færist yfir hugsanalífið. Þetta hefir einmitt vakað fyrir mjer, og jeg álít, að biskupskosning geti haft þýðingarmikil áhrif í þessu efni.

Gerum nú ráð fyrir, að tvær andstæðar skoðanir sjeu ráðandi hjá kirkjunnar mönnum, og landsstjórnin fylli annan flokkinn. Þegar svo er, er mjög varhugavert, að stjórnin ráði ein, hver verður biskup; landsstjórnin gæti alveg eins fylgt minni hlutanum, og þá veldi hún að sjálfsögðu mann úr honum. Það er alveg sama, hvort heldur íhaldssamari eða frjálslyndari skoðunin hefir yfirtökin; meiri hlutinn á að ráða kjöri yfirmannsins. Jeg segi fyrir mitt leyti, að jeg gæti vel sætt mig við biskup, sem kjörinn væri úr hópi andstæðinga minna, ef þeir væru aðeins í meiri hluta. En jeg gæti ekki sætt mig við fulltrúa minni hluta stefnunnar. Með biskupskosningu væri því fengin best trygging fyrir því, að æðsti embættismaður kirkjunnar nyti samúðar hjá prestastjettinni. Og það er stærsta höfuðatriðið í þessu máli. Það væri mjög leiðinlegt fyrir yfirmann kirkjunnar að vita sig á öndverðum meið við meiri hluta prestanna, eins og það hins vegar væri skemtilegt, ef hann vissi sig í fullu samræmi við meiri hlutann. En ef ríkisstjórnin væri, eins og vel gæti átt sjer stað, andstæð kirkju og kristindómi, þá væri það algerlega óviðunandi, að hún hefði óskorað vald um veitingu æðsta embættis kirkjunnar.