29.03.1921
Neðri deild: 29. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

78. mál, sala á landspildu

Jón Baldvinsson:

Þótt jeg vilji ekki gerast meinsmaður þessa frv., vil jeg þó gera nokkrar athugasemdir í sambandi við það, þó seint sje. Og það er af því, að jeg get ekki stilt mig um það að láta í ljós, að jeg tel það mjög óheppilega stefnu, að selja opinberar eignir í hendur einstökum mönnum. Að vísu á það ekki við um þetta mál, þar sem gert er ráð fyrir því að selja hreppi, þó hann gæti svo aftur selt einstaklingum. Þess vegna vil jeg skjóta því til hæstv. stjórnar, hvort hún vildi ekki setja það ákvæði inn í afsalsbrjefið, að hreppurinn mætti aldrei láta landið af hendi til einstaklinga.