02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

59. mál, sóknargjöld

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vil ekki deila á hv. nefnd fyrir það, þótt hún telji stj.frv. óaðgengilegt. En jeg verð að segja það, að aðferð nefndarinnar er óvenjuleg, að koma með nýtt frv. í stað þess, sem til hennar var vísað, þar sem þó var engu erfiðara, en virtist liggja miklu beinna við, að nefndin kæmi með brtt. við það frv., í þá átt, sem hún taldi rjett. Það er þinglegra. Jeg veit að vísu, að stundum hafa komið fram 2 frv. um sama efni. Einu sinni komu fram á sama þingi 2 stjórnarskrárfrv., sem voru býsna ólík, og líkt átti sjer stað um fossamálin 1919, og það finst máske fordæmi fyrir líkri aðferð og þeirri, sem hjer er höfð. Það er þó ekki tilgangur minn að gera neitt veður út af þessu, en mjer virðist meðferð nefndarinnar vera óþingleg.

Mjer er sagt, að kirkjugjöld sjeu víða þegar hækkuð, og því er engin brýn ástæða til að flýta frv. Mjer er ennfremur sagt, að hækkunin sje víða tekin á sama hátt og gert var ráð fyrir í stjórnarfrv., sem sje með niðurjöfnun. Ef ekki er fyrir hendi nóg fje til viðhalds kirkjunni, þá er jafnað niður því, sem á vantar. Annars skil jeg ekki, hvers vegna nefndin hækkar ekki jafnmikið og stjórnin lagði til, úr því að hún er að koma fram með hækkun á annað borð. Það munar ekki mikið um 25 aura, en kirkjunum mun síst veita af því, sem stjórnarfrumvarpið fór fram á.

Um sóknargjöldin tala jeg ekki; það mun fjármálaráðherra gera. En einu vildi jeg bæta við. Úr því að háttv. nefnd gat ekki aðhylst stefnu stjórnarfrv. um sóknargjöldin, þá bar henni engin skylda til þess að fara að eiga við kirkjugjöldin. Sóknargjöldin snerta fjárhag ríkisins, og vegna þeirra var frv. vísað til hennar. Kirkjugjöldin koma minna ríkissjóði við. Það atriði frv. heyrði því að rjettu lagi undir allsherjarnefnd.