02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

59. mál, sóknargjöld

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg játa, að mjer er sárt um að missa þær tekjur, er frv. þetta ræðir um. Þær mundu nema 80 –100 þús. krónum á ári. Jeg sje ekki annað en að eðlilegt sje, að sóknargjöldin hækki um leið og laun prestanna, því að það var tilætlunin, að sóknargjöldin væru notuð til að launa þeim með. Ef nefndinni hefði ekki líkað, hvernig gjaldinu er fyrir komið í frv., þá gat hún breytt því.

Það er ein breyting, er frv. gerir ráð fyrir, sem nefndin virðist ekki hafa tekið eftir. Þar er gert ráð fyrir, að prestlaunasjóðurinn falli niður og renni saman við ríkissjóð. Þetta gjald er því ekki greitt til prestanna, heldur fá þeir laun sín úr ríkissjóði, og nær því ekki neinni átt, að frv. þetta, þótt það yrði að lögum, gæti vakið óvild til prestanna. Hins vegar býst jeg við, að háttv. 2. landsk. þm. (S. E.), eftir þeim ummælum, er hann hafði, sjái um tekjur í skarðið, ef frv. stjórnarinnar nær ekki fram að ganga.

Jeg er ekki í efa um, að tiltæki nefndarinnar miðar að því að fyrirbyggja, að fyrri hluti stjórnarfrv. komi til atkvæðagreiðslu, því að engu meiri fyrirhöfn var að búa til brtt. en þetta nýja frv., sem komið er fram. En vel má vera, að hægt sje að breyta þessu í Nd.