02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

59. mál, sóknargjöld

Sigurður Eggerz:

Hæstv. forsrh. (J. M.) áleit það fjarstæðu, að menn ljetu óánægjuna bitna á prestunum; en ef hann væri jafnkunnugur í sveit eins og jeg, þá myndi hann ekki efast um það.

Hæstv. fjrh. (M. G.) hjelt því fram, að þetta gjald ætti að nota til þess að launa prestunum. En jeg get hugsað, að þetta yrði til þess að ýta undir þá hreyfingu, sem um nokkurt skeið hefir gert vart við sig hjer á landi, sem sje aðskilnað ríkis og kirkju. Þetta er ef til vill „Diplomati“ frá stjórnarinnar hálfu, því að það getur verið, að stjórnin ætli sjer með þessu frv. að vekja þessa hreyfingu upp af nýju.

Að því er snertir það, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að nefndin ætlaði að útiloka deildina frá að greiða atkvæði um fyrri hluta stjórnarfrv., þá er því þar til að svara, að jeg er viss um, að deildin er sömu skoðunar og nefndin í þessu máli, og hins vegar hægt að koma honum að, ef einhver óskar þess.

Annars er það síður en svo, að það sje nýtt, að jeg sje á móti þessu gjaldi, því að þegar jeg var fjármálaráðherra, var jeg á móti hækkun þessa gjalds, eins og hæstv. fjrh. (M. G.) veit. (Fjrh.: Jeg veit ekkert um það). Veit hæstvirtur fjrh. ekkert um það? Það þykir mjer einkennilegt.