02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

59. mál, sóknargjöld

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg er einn í þessari fjhn., og jeg hefi ekki gert neitt ágreiningsatriði. En það verð jeg að segja, að því er snertir formið, er jeg hæstv. forsrh. (J. M.) samþykkur, og að sumu leyti samþykkur hæstv. fjrh. (M. G.). Jeg lít svo á, að hjer hefði átt að koma fram með brtt., og að hitt frv. hefði átt að tak í til greina. En jeg var nefndinni sammála um, að stj.frv. bæri ekki að samþykkja óbreytt, fyrst og fremst af því, að jeg álít, að ríkissjóður eigi að launa prestunum, en ekki væri rjett að leggja nú sjerstök gjöld á almenning til að launa þeim, því að þá er laun prestanna voru hækkuð á síðastliðnu þingi, var það gert að almenningi forspurðum. En ef nú á að leggja þessa hækkun á almenning, þá hefði átt að láta hann samþykkja hana fyrirfram. Að þessu leyti er jeg nefndinni samþykkur.

Hins vegar gæti það komið til greina að hækka sóknargjöldin að litlu leyti.

Að því er snertir kirkjugjöldin, tók forsætisráðherra (J. M.) það fram, að ekki væri nauðsynlegt að koma fram með þetta frv., því að sóknarnefndirnar hefðu nú þegar hækkað gjöldin, og væri því ekki þörf á, að lögin öðluðust gildi strax. En nú er, eftir því sem mjer skildist, ekki hægt að hækka gjöldin, nema við þær kirkjur, sem söfnuðirnir hafa sjálfir tekið að sjer, en þar, sem kirkjurnar eru bændakirkjur, eiga sóknarnefndirnar ekkert með að hækka gjöldin til þeirra. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að samþykkja þetta frv., því að þá kemur hækkunin jafnt niður á báðum, bændakirkjum og safnaðakirkjum. Og ef nú gjaldið, sem til er tekið í þessu frv., reynist of lágt, þá spillir það ekki neinu, því að sóknarnefndirnar geta hækkað það, þar sem þær hafa yfirráðin, eins og þær hafa gert hingað til. Hitt er annað mál, hvort gjaldið þyrfti að vera eins hátt og ákveðið er í stjórnarfrv. Jeg er á því, að með þeirri upphæð, sem tekin er fram í þessu frv., sje fullkomlega miðlað málum.

Þetta er því það, sem jeg vildi segja, að jeg held, að rjettara hefði verið að koma fram með brtt., og að það sje rjett, sem fjrh. (M. G.) sagði, að nefndin hefði átt að athuga, hvort sóknargjöldin til presta skyldu ekki hækka eitthvað, en að þau hækki í hlutfalli við laun prestanna, hefi jeg þegar tekið fram, að jeg tel ekki rjett, því að engin ástæða er til að miða við þau, af því prestarnir hafa, eins og aðrir embættismenn, rjett til að taka laun sín úr ríkissjóði, og einstakir gjaldendur ekki skyldir að borga þeim sjerstaklega. Niðurjöfnun gjaldsins álít jeg eigi að vera þannig, að allir borgi jafnt, því að af því allir hafa fyrir sálum að sjá, þá eiga líka allir að borga jafnan skatt. En það gerðu menn ekki — svo jeg komi aftur að frumvarpi stjórnarinnar — ef gjaldið ætti fyrst að leggjast jafnt á alla, en svo ætti helmingurinn af því að jafnast niður eftir efnum og ástæðum. Þetta get jeg ekki aðhylst, að fyrst sje nefskattur, sem síðar sje jafnað niður að nokkru leyti eftir efnum og ástæðum. Þessu „principi“ er jeg algerlega mótfallinn. því er t. d. beitt við bjargráðasjóðsgjald, sýsluvegagjald, sýslusjóðsgjald og hreppavegagjald. Þetta eru fyrst persónugjöld, sem síðar eru lögð á eftir efnum og ástæðum. Ef nú gjaldið er í upphafi nefskattur, þá vil jeg, að það sje það til enda, því að þessi niðurjöfnun gæti orðið til þess, að farið yrði að reka hina fátækari úr sveitunum, þar sem efnamennirnir með þessu móti verða að gjalda nokkurskonar skatt af þeim.