02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

59. mál, sóknargjöld

Fjármálaráðherra (M. G.):

Það er rjett, sem jeg sagði, að háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) er á móti frv. stjórnarinnar, og þess vegna hefir hann ekki viljað láta deildina greiða atkvæði um það og ætlað sjer á þennan hátt að koma því fyrir kattarnef. En hvað deildin vill um það segja, að nefndin tekur mál frá henni og hamlar henni á þann hátt að greiða atkvæði um það, get jeg ekki sagt.

Hvað það snertir, að það sje alveg einstætt, að alþýða þurfi að borga prestunum sjerstaklega fyrir störf þeirra, þá er það ekki rjett, því að svipað er með ýms gjöld, sem sýslumenn taka fyrir unnin störf. Sú var tíðin, að sýslumenn fengu laun sín beint frá einstaklingunum. Seinna var því breytt þannig, að þeir fengu laun sín úr ríkissjóði, en þá voru um leið sett viss gjöld, sem menn urðu að greiða fyrir ýms verk, sem sýslumennirnir framkvæmdu, til dæmis þinglestur, og rennur það gjald í ríkissjóð. Sóknargjöldin má skoða sem borgun fyrir messur presta; þau renna í ríkissjóð eins og gjöld fyrir unnin verk sýslumanna.

Þar sem háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) talaði um það, að niðurjöfnun gjaldsins í stjórnarfrv. væri óheppileg, þá get jeg fallist á, að best væri, að alt gjaldið væri beinn nefskattur.

Það, sem jeg legg áherslu á, er það, að missa ekki tekjurnar eftir þessu frv.