02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

59. mál, sóknargjöld

Sigurður Jónsson:

Það er erfitt að tala um þetta mál, án þess að blanda saman ýmsu, sem ekki á alveg saman. Aðalatriðið er það, hvort lögfesta beri hærra persónugjald til kirkna, af því þær þurfi meiri tekjur, en jeg veit varla, hvort þetta frv. bætir verulega úr. Víða hefir kirkjugjaldið verið hækkað með samþyktum hjeraðs- og safnaðarfunda. Jeg hefi verið sóknarnefndarmaður og safnaðarfulltrúi frá því lög um þetta komu í gildi og þangað til jeg flutti til Reykjavíkur, og veit, að hækkað hefir verið eins og álitið var við þurfa. Jeg er því í efa um, hvort lagabreytingar þarf. Valdið er hjá söfnuðunum. En ef breytt er á annað borð, þá er gjaldið of lágt. Jeg mun þó greiða frv. atkvæði mitt til 2. umræðu, í þeirri von, að háttv. nefnd komi þá með brtt. um hækkun gjaldsins frá því, sem hún vill nú vera láta.