03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

31. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það hefir verið venja, þegar fjáraukalagafrv. hefir verið til umræðu, eða afgreitt af fjárhagsnefnd, að því fylgdu till. nefndarinnar út af ágreiningi milli endurskoðenda landsreikninganna og fjármálastjórnarinnar. Þó að þetta hafi þannig verið, þá lítur nefndin svo á, að alveg eins sje viðeigandi, að ýmsar fyrirspurnir eða tillögur komi fram við samþykt landsreikningsins sjálfs, því nánast tekið fjallar fjáraukalagafrv. að eins um umframgreiðslur fram yfir það, sem fjárlög ákveða, eða heimilað er með öðrum lögum.

En það vill nú svo vel til í þetta skifti, að ágreiningurinn milli endurskoðenda og landsstjórnar er svo sáralítill, og þannig vaxinn, að nefndin hefir ekki álitið þörf að gera till. út af honum. Þó eru nokkur atriði, sem jeg mun fyrir nefndarinnar hönd minnast á til frekari árjettingar. Annars vil jeg taka það fram, að endurskoðun landsreikninganna virðist fremur vera reikningsleg en „kritisk“, enda má ske heldur ekki veruleg ástæða til þess.

Sú mikla breyting er nú orðin frá 1916 og 1917, að athugasemdirnar við landsreikningana eru ekki nema sárfáar, 1918 43 og 1919 42, en 1916 og 1917 voru þær komnar upp í 260 hæst, að mig minnir, og nú kemur það ekki fyrir, að nokkur till. komi, sem vísi ágreiningnum til Alþingis. Það frekasta sem þær fara er „til athugunar“.

Þau atriði, sem nefndin vill sjerstaklega minnast á, eru þessi:

1. Tekjur af Íslandsbanka 1918. Yfirskoðunarmenn telja gjaldið af ótrygðum seðlum vanborgað, og það vanrækt sjerstaklega að gera það upp í hver mánaðarlok, hve mikið er í umferð af seðlum og hver málmforði bankans er, þar sem eftir því verður auðvitað fundið. hvað greiða þarf af ótrygðu seðlunum eftir gildandi ákvæðum. Yfirskoðunarmenn telja, að aðeins fyrir desember 1918 hafi bankinn gert þetta, og sje sú upphæð, sem bankanum ber að greiða fyrir þann mánuð, kr. 2719,05, en þann mánuð sje ekkert gjald talið frá bankanum, og bankinn muni byggja á því, að til tryggingar þessum hluta seðlanna nægi eingöngu annar forði en gull. Vekja yfirskoðunarmenn vitan lega athygli á þessu.

Út af þessum ágreiningi hefir nú stjórnin ákveðið að leita úrskurðar dómstólanna, og telja yfirskoðunarmenn — og sömuleiðis nefndin — það fullnægjandi Hefir stjórnin falið málfærslumanni málið, en lengra er það ekki komið. Leggur nefndin sterka og ríka áherslu á það, að þetta sje gert, og ekki tafið um skör fram.

Þá er smávægileg athugasemd um eftirstöðvar af tekjum og um afrækta greiðslu Miklaholtsprestakalls, sem nefndin hefir ekki heldur fundið ástæðu til að gera sjerstaka till. um, þar sem líka 200 kr. frádráttur hefir orðið á þessu síðastl. ár og verður að líkindum áfram.

Þá eru reikningar Hvanneyrar. Þar ber reikningum skólastjóra og stjórnarinnar ekki saman; skakkar um 583 kr., sem reikningur skólastjóra er lægri en það, sem ávísað hefir verið frá ríkissjóði. Þetta mun vera skiljanlegt af því, að stjórnin ávísar í heilu lagi, og mun afgangurinn því annað hvort hafa fallið í aðra flokka en endurskoðunarmenn tilfæra, eða verið geymdar til næsta árs, og því gerir nefndin heldur enga sjerstaka till. um þetta atriði.

Svo skal jeg að lokum geta þess um eftirstöðvar af innheimtu fje ýmsu, að áherslu verður að leggja á það, að þær náist altaf sem fyrst, enda er þetta mikið að lagast nú, þannig að þær eru komnar niður úr 461/2 þús. árið 1918 í rösk 14 þús. kr. árið 1919, og má það heita mikil lögun á svo skömmum tíma.

Að endingu hefir nefndin fundið reikningsskekkju um 1 krónu, sem brtt. hljóðar um, en af vangá nefndarinnar, eða minni, er brtt. ekki nógu skýr, þar sem hún þurfti að ná til aðaltalnanna í 1. gr. En enga sök á skrifstofan á þessu, og verður væntanlega kostur á að leiðrjetta það.

Held jeg svo, að ekki þurfi að fjölyrða meira um þetta mál.