09.03.1921
Neðri deild: 18. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

59. mál, sóknargjöld

Forsætisráðherra (J. M.):

Fyrir háttv. Ed. var lagt frv. af stjórninni, um breytingu á lögum um sóknargjöld, og var það frv. á þann veg, að þau voru tvöfölduð, hækkuð úr 1 kr. 50 aur. í 3 kr., og kirkjugjöld hækkuð að sama hlutfalli. Fjhn. Ed. hefir látið frv. liggja hjá sjer af þeirri ástæðu, að hún gat ekki fallist á hækkun sóknargjalda. Frv. liggur enn hjá þeirri nefnd, en í þess stað hefir hún borið fram frv. um hækkun kirkjugjalds, en þó ekki eins mikla hækkun og frv. stjórnarinnar fór fram á. Jeg býst við, að þessi háttv. deild athugi það frv., sem nú liggur fyrir, og þá um leið, hvort ekki sje viðeigandi að breyta því í líka átt og frv. stjórnarinnar. Í því var gert ráð fyrir, að gjaldinu yrði jafnað niður, en þetta frv. fer fram á, að allir greiði jafnt gjald. Jeg skal ekki segja um, hvor aðferðin er rjettari; það athugar vonandi sú nefnd, sem fær málið til meðferðar. Frv. stjórnarinnar var borið fram í þeim tilgangi að afla tekna, og virðist það ekki ósanngjarnt, þegar þess er gætt, að sóknargjöld eru upphaflega til þess ætluð að koma á móti launum presta.

Frv. í sömu átt og þetta hafa farið til fjárhagsnefndar í háttv. Ed., og þykir mjer rjett, að þetta frv. fari því til fjárhagsnefndar.