15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

101. mál, slysatrygging sjómanna

Frsm. (Þorleifur Guðmundsson):

Jeg þarf ekki miklu að svara, enda erum við, jeg og háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), að miklu leyti sammála. En jeg verð enn að mótmæla því fordæmi, sem skapa á með till. háttv. þm. (J. B.). Hann mintist á, að mjer væri kunnugt, að útgerðarmenn austan fjalls greiddu þessi slysagjöld. Það er satt, að þeir gera það að sumu leyti, en þeir hásetar, sem róa upp á hlut, greiða gjöld sín sjálfir. Og þar kemur greinilega fram það, sem jeg sagði, að sjálfstæðari hlutinn greiðir sjálfur, hinir, sem selja algerlega vinnukraft sinn, láta atvinnurekendur greiða fyrir sig.

Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) talaði um, að fara að dæmi annara þjóða, og það er rjett, en hann vill taka þær til fyrirmyndar þar, sem síst skyldi. Þetta fyrirkomulag er ljóst merki um kúgun og ósjálfstæði alþýðunnar. Því að það er alkunnugt, að þar, sem kúgun alþýðunnar er mest, þar er reynt að láta hana hafa sem minsta meðvitund um, að það sje í raun og veru hún sjálf, sem vinnur fyrir sjer, heldur sje hún borin og dregin fram af yfirstjettunum. Þetta er það, sem mest lamar þjóðirnar, því að eftir því, sem fleiri eru ósjálfstæðir meðal þjóðarinnar, er henni hættara.

Við eigum ekki að semja okkur að því. Alþýðan á ekki að standa í keng frammi fyrir atvinnuveitendum, heldur að bera höfuðið hátt, vera sjálfstæð, og vita það. Það er ekki merki um sjálfstæði að heimta í vitleysu hærra og hærra kaup, heimta meira en sanngjarnt er og atvinnuvegirnir geta borið, heldur á hún að vera sjálfstæð í raun og veru.

En úr því jeg stóð upp, vil jeg drepa á till. á þskj. 243, sem nefndinni barst frá Fiskifjelagi Íslands og fer í þá átt, að úterðarmaður skuli greiða gjald þess, er ferst og á það ógoldið.

Þetta er af þeirri eðlilegu ástæðu, að það er ekki gott fyrir sjóðinn að ná inn skuld sinni þegar maðurinn er dáinn, en hann mun oftast eiga eitthvað inni hjá útgerðarmanni, og þó að svo sje ekki, þá er eðlilegt, að útgerðarmaður greiði, því að hann átti að bera ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Þessi till. er því sjálfsögð, en hún fer á engan hátt í sömu stefnu og till. háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.).

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en vænti þess, að háttv. deild taki frv. og brtt. nefndarinnar vel.