15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

101. mál, slysatrygging sjómanna

Pjetur Ottesen:

Mjer virtist kenna nokkurs misskilnings hjá háttv. frsm. (ÞorL G.) viðvíkjandi till. á þskj. 243. Hún er fram komin vegna þess, að fyrir hefir komið, að útgerðarmenn hafa vanrækt að tryggja skipverja eða greiða iðgjöld þeirra í slysatryggingarsjóðinn, en þeim ber skylda til að gera það.

En þegar svo hefir borið við, að þeir menn hafa farist, sem vanrækt hefir verið að líftryggja eða greiða iðgjöld fyrir, þá bar slysatryggingarsjóðnum ekki skylda til að borga lífsábyrgðarfjeð. Að vísu mun mega líta svo á, að það sje andi laganna, að útgerðarmanni beri að greiða erfingjum eða aðstandendum hins drukknaða manns lífsábyrgðarfjeð, þegar svona stendur á, en til þess þyrfti auðvitað að hefja málssókn á hendur útgerðarmanni, en því fylgir mikið umstang, fyrirhöfn og kostnaður. Því er það, að með brtt. er farið fram á, að sjóðurinn greiði aðstandendum líftryggingarfjeð, þótt vanrækt hafi verið að greiða iðgjaldið, en svo hefir sjóðurinn aftur aðgang að útgerðarmanni með endurgreiðslu á hvorutveggja, iðgjaldinu og líftryggingarfjenu.

Þá þótti mjer einnig koma fram hjá háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) misskilningur á lögunum. Þar er skýrt tekið fram, að útgerðarmenn skuli greiða gjaldið, en þeir hafi rjett til þess að taka það af kaupi eða afla skipverja. Þetta er svo skýlaust tekið fram, að um það er ekki að villast. Það er þess vegna hreinn stefnumunur milli háttv. þm. (J. B.) og nefndarinnar. Það, sem háttv. þm. (J. B.) fer fram á með brtt. sinni, er nýmæli, sem sje það, að útgerðarmaður greiði iðgjöldin, án þess að hafa rjett til að taka þau aftur af kaupi eða hlut skipverja, en það þykir nefndinni alls ekki rjett, því að tryggingin er í þágu skipverja eða aðstandenda þeirra og því rjett og sanngjarnt, að þeir borgi iðgjöldin sjálfir.

Jeg vona, að menn hafi áttað sig fyllilega á þessum stefnumun, og greiði atkv. samkvæmt því.