25.04.1921
Efri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

72. mál, vátrygging sveitabæja

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Eins og nefndarálitið ber með sjer, hefir nefndin fallist á frv. í öllum aðalatriðum, og ekki komið fram með nema mjög smávægilegar brtt. 1. liður brtt. er við 1. gr. frv. Nefndin leggur þar til, að orðin „í brunabótasjóði“ í fyrri staðnum í 2. málsgr. verði feld burtu. Fanst nefndinni betur fara á því. Svo við hún bæta við í 1. gr. frv. því ákvæði, sem nú stendur sjerstakt í 12. gr. Virðist fara betur á, að það komi strax þarna. Auk þess eru allar gr. frv., nema 12. gr., breytingar á gr. í núgildandi lögum. Hún ein er algerlega ný, og er því ekki vel ljóst, hvar hún ætti að koma inn í lögin.

2. brtt. við 2. gr. frv. er málsrjetting. í frv. stendur: „2000 kr. húseign og meiri eða lausafje“. Þetta finst nefndinni ekki skemtilegt orðalag, og vill því breyta því svo: „í húseign eða lausafje, sem er 2000 kr. virði eða meira“.

Af því að nefndin tók 12. gr. og skeytti hana við þá fyrstu, þá leiðir auðvitað að sjálfsögðu af því, að 12. gr. fellur burt og 13. gr. verður 12. gr. Allar þessar breytingar, sem nefndin vill láta gera á frv., eru mjög smávægilegar, svo að jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um þær. Leggur nefndin til, að frv. verði samþykt hjer í þessari háttv. deild, þannig breytt.