18.03.1921
Efri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

31. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Brtt. þeim, sem fjhn. hefir gert við frv. á þskj. 153, er þannig varið, að 1. brtt. a. leggur til, að tekin sje upp í fjáraukalögin fjárhæð, sein nemur kr. 20785.12, sem greidd var umfram fjárveiting til póstflutnings 1919, og kr. 13844,15, greiddar umfram veitingu til annara póstgjalda 1918. Lítur nefndin svo á, að þær umframgreiðslur eigi, eins og aðrar umframgreiðslur, að standa í fjáraukalögum. Að síðarnefnda upphæðin hefir eigi komist inn í frv., stafar, að því er upplýst hefir verið, af vangá endurskoðenda landsreikninganna, en um hina upphæðina munu þeir hafa verið í vafa, hvort nauðsyn bæri til að hún stæði í fjáraukalögunum. Þar sem þar hefði verið um sjálfsagðan kostnað að ræða. En þar sem nú í frv. hafði verið tekin — og eftir till. endurskoðenda — samskonar umframgreiðsla fyrir árið 1918, þótti fjhn. sjálfsagt, að svo yrði einnig gert um þessa.

Brtt. 1 b. snertir Gerðatangavitann. Til þessa vita eru í fjárlögunum fyrir 1918 og 1919 veittar 6000 kr. síðara árið, en notaðar kr. 8922,82 fyrra árið og kr. 4578, 25 hið síðara ár. Nú eru í fjáraukal.frv. þær 6000 kr., sem veittar eru síðara árið, dregnar frá þeim kr. 8922,82, sem notaðar voru fyrra árið, í stað mismunarins, kr. 1421.75, á því, sem veitt og notað var hið síðara ár, og sem að eins gat komið til frádráttar að rjettu lagi.

2. brtt. er að sumu leyti leiðrjetting á röngum tilvísunum í landsreikninginn, sem líklega eru prentvillur. Á niðurfærslu nefndarinnar á umframgreiðslu til skógarvarða 1918 stendur svo, að ónotaðar eru þar 2000 kr. af veittu fje til skógarvarða 1919, og er það í samræmi við þá meginreglu, sem fylgt hefir verið við samning fjáraukalagafrumvarpsins, að þær sjeu dregnar frá umframgreiðslu frá fyrra ári. Til ferðakostnaðar fiskimatsmanna eru taldar greiddar kr. 673.00 umfram veitingu 1919 í fjáraukalagafrv., en þetta er alveg rangt. Á hinn bóginn hafði verið greitt umfram veiting til síldarmatsmanna þ. á. kr. 1023.00, og með því að draga frá þeirri upphæð kr. 349.90, sem ónotaðar voru af veittu fje til ferðakostnaðar fiskimatsmanna árið áður, er fengin sú upphæð (kr. 673.00), sem í fjáraukal.frv. stendur, og er því bersýnileg villa.

Að niðurstöðutölur frv. breytast við þessar leiðrjettingar, leiðir af sjálfu sjer.