28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

86. mál, samvinnufélög

Jón Þorláksson:

Eftir að háttv. deild við 1. umr. málsins synjaði þess að láta málið ganga til nefndar, mun það sennilega þýða lítið að tala um frv. þetta, því að forlög þess munu afráðin utan þingfunda.

Þó sýnist mjer eigi rjett, að frv. gangi svo í gegnum deildina, að eigi verði minst á aðalatriði þess.

Hitt er eigi hægt að ræða ítarlega, efni einstakra greina þess, úr því að þessi meðferð er ákveðin. Jeg vil leiða athygli að því annars vegar, að eftir ákvæðum 2. og 3. gr. frv. er lítill efi á því, að verði þessum fjelögum áskilin þau hlunnindi, sem lögin annars gera ráð fyrir, þá verður stöðugur ágreiningur um það, hvaða fjelög eigi að teljast til þeirra. Svið þessara fjelaga er svo rúmt markað, að áreiðanlega má koma þar undir flestum fjelögum hjer, aðeins með lítilfjörlegum breytingum á lögum þessara fjelaga, sem á engan hátt gætu orðið tilfinnanlegar.

1.gr. frv. getur, eftir orðalagi sínu, gripið yfir öll hlutafjelög, því að þau miða öll að því að efla hag hluthafa, eftir rjettu hlutfalli við hlutafjártillög þeirra.

2. gr. frv. ákveður viðfangsefni fjelaganna. Er 3. liður hennar svo vítt orðaður, að alt getur undir hann fallið.

Þar stendur: „Önnur starfsemi, svo sem“. Er því auðsætt, að þetta, sem upp er talið, er einungis tekið sem dæmi, en er alls eigi tæmandi. Þar er nefnd starfræksla iðnaðarfyrirtækja, en að sjálfsögðu hlýtur starfræksla annara atvinnugreina alt að einu að geta fallið hjer inn undir, t. d. starfræksla sjávarútvegs.

Þá, er 3. gr. ætlað að afmarka samvinnufjelögin frá öðrum atvinnufjelögum, með því að telja upp sjereinkenni samvinnufjelaga. En þau eru ekki sjerkennilegri en það, að flest önnur núverandi atvinnufjelög mundu komast undir þau ákvæði, með því að gera óverulegar breytingar á lögum þeim, er þau nú hafa.

Þá gerir 2. liður 3. gr. ráð fyrir því, að fjelög með takmarkaðri ábyrgð, þ. e. hlutafjelög, sem kölluð hafa verið til þessa, geti komist inn undir þetta, nema ætlunarverk þeirra sje aðeins að kaupa vörur til heimilisþarfa. Ef eitthvað annað er markmið þeirra, þá geta þau fallið undir samvinnufjelög, samkv. 2. lið 3. gr.

Mjer finst, að það sje óheppilegt, að lögin sjeu svo víðtæk, að þau nái langt út fyrir það, sem hingað til hefir verið talið samvinnufjelög.

Jeg get ekki skilið þá háttv. þm., sem eru þeirri skoðun fylgjandi að láta málið ekki fara í nefnd, til þess að fá þar nauðsynlega athugun, því að það er ekki hægt að athuga það nægilega nema í nefnd, eða þá utan þings af stjórninni.

Jeg ætla mjer ekki að fara langt út í ákvæði einstakra greina frv., en eftir því, sem mjer skilst, mundu flest nú starfandi fjelög fullnægja skilyrðum 1. og 2. gr. með óbreyttum lögum sínum.

Í 1. lið 3. gr. er sett það skilyrði, að aðgangur sje frjáls fyrir alla, og er oft þannig stofnað til hlutafjelaga, aðeins að menn verða að gefa sig fram fyrir tiltekinn tíma. Ef til vill er hugsunin í 1. lið, að aðgangur sje stöðugt frjáls, en það sjest ekki, eins og greinin er hjer orðuð, heldur virðist heimilt að láta tímatakmark vera eitt af þessum tilteknu skilyrðum. Sameiginleg ábyrgð er ekki heimtuð, nema þar, sem um kaupfjelög eða pöntunarfjelög er að ræða.

Ákvæði 3. liðs 3. gr., um atkvæðisrjettinn, er ekki venjulegt í hlutafjelögum, en þau mundu mörg vilja innleiða það, ef það gæti orðið til hagnaðar fyrir fjelagið.

Yfirleitt mun það vera hægt fyrir flest fjelög að fullnægja öllum ákvæðum þessarar greinar. Að því leyti finst mjer þessi ákvæði í 3. gr. vera óljós, og jeg þykist vita, að út af þeim muni rísa margvíslegur ágreiningur um útsvarsskyldu fjelaganna í sambandi við 38. gr. frv. Jeg skal svo ekki að þessu sinni fara út í aðrar greinar en þá, sem ræðir um útsvarsskylduna.

Það virðist vera aðaltilgangur frv. að undanþiggja samvinnufjelögin sveitarútsvari þar, sem þau eru starfrækt. Þetta kemur illa heim við þann grundvöll, sem útsvarsgreiðslur eru bygðar á, þar sem fyrirskipað er að leggja útsvarið á eftir efnum og ástæðum. Sú grundvallarregla er brotin, ef nokkrir gjaldþegnar eru undanskildir niðurjöfnuninni, því að rjettmæti þessarar grundvallarreglu byggist fyrst og fremst á því, að henni sje beitt jafnt gagnvart öllum.

Mjer virðist ekki heldur vera nein ástæða til að gera nein undantekningarákvæði fyrir samvinnufjelögin, þegar meðlimir fjelaganna, eða allur þorri þeirra, eru heimilisfastir innan þess sveitarfjelags, þar sem fjelögin starfa og útsvarsskylda hvílir á þeim. Því að þá er engin sjáanleg ástæða til að ætla, að þeim gjaldþegnum verði íþyngt fremur öðrum. Þau hljóta að hafa fullkomlega jafngóða aðstöðu og aðrir gjaldendur til að kæra útsvar sitt og fá það lækkað, ef ósanngjarnlega er á þau lagt.

Hins vegar skal jeg fúslega játa, að rjettarstaða þessara fjelaga er óviðunandi, þegar meðlimirnir eru búsettir utan þess hjeraðs, sem fjelagsstarfsemin er rekin í. Það er óviðunandi fyrir samvinnufjelög utanbæjarmanna hjer í Reykjavík, að bæjarstjórnin skuli hafa æðsta úrskurðarvald um útsvarsupphæð þeirra. En þetta er ekki einsdæmi um samvinnufjelögin. Sama gildir um öll atvinnufyrirtæki, sem rekin eru í kaupstöðum og sýslufjelögum, án þess að eigendurnir sjeu heimilisfastir þar. Það er yfir höfuð ófullnægjandi, og ekki rjett nje trygt, að eiga æðsta úrskurðarvald um útsvar undir stjórn annars sýslufjelags eða kaupstaðar en þess, sem maður er búsettur í, sökum þess, að bæjarstjórnir og sýslunefndir geta ekki talist óvilhallar í þeim málum, og mundu máske fremur neyta þessa valds til að láta þá, sem ekki eru búsettir í umdæminu, gjalda meira en rjettmætt væri. Jeg viðurkenni því, að mjer finst það rjettlátt að gera breytingu á þessu, en jeg held því fram, að sú breyting eigi að ná til fleiri en samvinnufjelaganna; breytingin á að ná til allra, þar sem rjetturinn er jafnilla trygður fyrir alla eftir núgildandi löggjöf. Af því leiðir, að jeg tel það óviðunandi að gera svona undantekningu með samvinnufjelögin ein, eins og gert er í 38. gr., að undanþiggja þessi fjelög að greiða útsvar eftir efnum og ástæðum, hvernig sem á stendur, en gera þeim aftur að greiða lítilfjörlega fasteignaskatta í staðinn.

2. liður greinarinnar er svo orðaður, að út af honum munu rísa eilífar deilur við hlutaðeigandi stjórnarvöld sveitarfjelaganna.

Við skulum hugsa okkur Sláturfjelag Suðurlands. Það selur allar sínar vörur utanfjelagsmönnum. Það er ekki hægt að sjá, hvort taka á til greina arð, er yrði af slíkri sölu, eða hvort það er meiningin að telja aðeins þann arð, sem yrði á sölu, ef sláturfjelagið tæki vörur af utanfjelagsmönnum til að selja fyrir þá. Það hefir í útsvarsmáli þessa fjelags verið reynt að gera mun á þeim arði, sem kemur af smásölu kjöts út úr búð fjelagsins til innanbæjarmanna, og þeim arði, sem kemur af sölu kjöts til útflutnings eða til bæjarmanna í stœrri kaupum, en dómstólarnir munu ekki hafa viljað fallast á að gera slíkan greinarmun, enda ekki gott að sjá, að hann hafi við neitt að styðjast.

Jeg veit, að það muni koma fram örðugleikar hvað snertir afstöðu samvinnufjelaganna og stjórnarvaldanna, þegar um tekjuskatt er að ræða, vegna þess sjerstaka fyrirkomulags, sem er á reikningshaldi fjelaganna. En jeg hefi ekki sjeð, að slíkir örðugleikar þurfi að koma fram, þar sem um sveitarútsvar eftir efnum og ástæðum er að ræða. Það er metið af niðurjöfnunarnefnd, og útsvarið ekki bundið við reikningsfærslu fjelagsins, heldur við efni og ástæður þess og hvað miklu fje verslunin veltir, ef um verslunarfyrirtæki er að ræða. Það er enginn efi á, að þetta má gera með fullkomnu rjettlæti, að svo miklu leyti, sem hægt er að búast við rjettlæti hjá óviðkomandi mönnum í annara garð, alveg eins um samvinnufjelög sem önnur fyrirtæki.

Jeg hefði álitið rjettast, að svona vandasamur lagabálkur væri ekki afgreiddur á þessu þingi, sem þegar er hlaðið störfum, heldur hefði málinu verið vísað til stjórnarinnar, til betri undirbúnings.

Mjer er óskiljanlegt, að það skifti samvinnufjelögin svo miklu, hvort slíkur lagabálkur kemst til framkvæmda árinu fyr eða síðar. Ef því væri vísað til stjórnarinnar og krafist af henni að hún tæki það til íhugunar í meginatriðunum, þá yrði hún að reyna að finna rjetta úrlausn á skattskyldu utansveitarmanna til sveitarfjelaga, þannig, að í lög yrði tekin sæmileg trygging fyrir því, að þeir, sem heimili eiga utan umdæmis kaupstaða og sveitarfjelaga, yrðu ekki misrjetti beittir um útsvarsgreiðslur. Og þá jafnframt ákveðið nánar en nú er í lögum um ívilnun útsvars í búsetusveitinni fyrir þá gjaldendur, sem verða útsvarsskyldir í fleiri sveitarfjelögum.