28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

86. mál, samvinnufélög

Atvinnumálaráðherra (P. J):

Þó að jeg kveðji mjer hljóðs, þá er það ekki af því, að stjórnin hafi tekið að sjer frv. þetta. Sennilegt er samt, að það hefði orðið, ef undirbúningnum hefði verið lokið svo snemma, að stjórnin öll hefði getað athugað það í tæka tíð. En jeg vil ekki sitja þegjandi hjá, ef farið er að ræða um þetta frv., því að jeg hefi þó átt nokkum þátt í tilorðningu þess og tilbúningi. Það hefir lengi vakað fyrir mjer að fá hjer sett lög um samvinnufjelög, svipuð þeim, er sett hafa verið í öðrum löndum og skýrt er frá í þessu riti, sem útbýtt hefir verið í deildinni. Að öðru leyti er þetta svo vel skýrt í greinargerð frv., að þess vegna er fátt eitt nú um þetta mál að segja, en nægir að skírskota til fylgiskjalanna, sem útskýra hvern kafla fyrir sig.

Aðaltilgangur frv. er, eins og háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gat rjett til um, að gera greinarmun á samvinnufjelögum og öðrum fjelögum í landinu, og gera það þannig, að önnur fjelög gætu á engan hátt smeygt sjer inn undir ákvæðin um samvinnufjelögin. En það er ekki eini tilgangurinn. Þessum fjelögum eru sett ýms skilyrði til að gera þau sem traustust, bæði gagnvart einstökum meðlimum sínum inn á við og gagnvart viðskiftamönnum sínum út á við. Það hefir oft sýnt sig, að svo hefir verið um hnútana búið hjá ýmsum fjelögum, að það hefir ekki verið aðgangur að neinum vissum með skuldir, til dæmis samábyrgðin svo lauslega umbúin, að menn hafa getað smeygt sjer úr henni. Þessir annmarkar hafa valdið því, að fjelögin hafa mist það lánstraust, sem þeim er nauðsynlegt, því að flest þeirra byrja með lítil efni, en tilgangurinn er að hafa sig áfram með samlagsfje og samábyrgð. Hagnaður einstaklinganna hefir svo að meira eða minna leyti verið hafður til að byggja upp samlagsfjeð smám saman, mynda stofnsjóð og aðra sjóði.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) ljet það í ljós, að þetta væru almenn ákvæði, og skipulagið væri svo óljóst, að undir' það mundu komast ýms fjelög, sem ættu ekki að vera þar, t. d. hlutafjelög með takmarkaðri ábyrgð. Það er alveg rjett, að í 3. gr. 2. lið er tekið svo til orða: „Þó nægir takmörkuð ábyrgð í þeim fjelögum, sem um er rætt í 2. og 3. lið 2. gr.“ Það eru með öðrum orðum sláturfjelög og smjörbú, og í öðru lagi fjelög fyrir almenna fræðslu, bygging híbýla o. s. frv.

Það er heldur alls ekki meiningin með þessum lögum að útiloka fjelög, sem framleiða sjávarafurðir, ef þau eru með samvinnufyrirkomulagi. En það er meiningin, að greinarmunur sje gerður á samvinnufjelögum og venjulegum hlutafjelögum, sem oftast eru fyrirtæki með það fyrir augum, að græða á stofnfjenu, og þetta er gert með ákvæðum frv.

Það er sá aðalmunur, sem fullkomlega útilokar þau frá því að komast inn undir þessi lög. Ennfremur er það, að í skilyrðunum fyrir samvinnufjel., samkvæmt frv., er meðal annars: frjáls inngangur fyrir hvern, sem á fjelagssvæðinu býr og fullnægir nokkrum almennum skilyrðum, sem sett eru. En um þetta er öðru máli að gegna um hlutafjelög með takmarkaðri ábyrgð, að minsta kosti oftast.

Í 5. lið 3. gr. er kveðið svo á, að tekjuafgangi í ársreikningi fjelagsins skuli skift til fjelagsmanna eftir viðskiftamagni hvers um sig.

Það kaupir enginn hluti í hlutafjelagi, sem ekki er þá reglulegt samvinnufjelag, í þeim tilgangi, sem hjer er beinlínis tekinn fram. Hjer er gert ráð fyrir, að þeir einir sjeu í slíkum fjelagsskap, sem hafa þann sameiginlega tilgang að ná að sjer vörum þeim í samlögum, sem hver um sig þarf til heimilis síns eða framleiðslu, eða í samlögum að koma sinni eigin framleiðslu í verð, án þess að græða hver á öðrum að öðru leyti, hvort um sig með þeim bestu kjörum, sem fjelagsskapurinn getur öðlast. Virðist vel girt fyrir möguleikana til þess að smeygja sjer inn undir þetta af annarskonar fjelögum. Verður ekki sjeð af athugasemdum háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að hjer þurfi neinu við að bæta. Þessi fjelög safna fje á tvennan hátt; 1. er tekjuafgangurinn, sem tekinn er til endurgreiðslu um áramót, eftir viðskiftamagni fjelagsmanna, hvort sem þeir eru kaupendur í kaupfjelagi eða seljendur í sláturfjelagi, og er af því lagt meira eða minna sem sjereign þeirra við stofnsjóð fjelagsins, og verður það líkt og sparisjóður fyrir fjelagsmenn, eða sjereignarsjóður þeirra. Aftur á móti er varasjóður eða tryggingarsjóður, sem ákveðin gjöld eru lögð til frá fjelagsmönnum, og stundum eru fleiri þess kyns sjóðir, en það eru sameignarsjóðir.

Með þessu frv. er það fyrirbygt, að þessi sjóður skiftist á milli fjelagsmanna við fjelagsslit, en í almennum gróðafjelögum, sem hlutafjelög yfirleitt eiga að vera og eru, skiftist afgangurinn eða gróðinn milli hluthafa eftir hlutafjármagni — hækkar t. d. hlutabrjefin í verði. — Á þessu er mikill munur.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) benti á, að mikil tilhneiging mundi verða til þess í framtíðinni að smeygja sjer undir þennan flokk fjelaga, til þess að komast hjá skatti. En í 8. kafla er svo skýrt tekið fram, hvaða fjelög eiga að vera skattfrjáls, að ekki er um að villast. Og jeg held, að fá hlutafjelög vildu vinna það til skattljettis, að taka á sig það snið. Auk þessa er hjer aðeins um bráðabirgðafyrirkomulag að ræða, því að ekki getur liðið á löngu áður en núverandi löggjöf í þessu efni, sem er ekki rjettlát, verði endurskoðuð. En þetta er sett svo nú, af því að lík ákvæði eru nú komin í lög annara landa, þar á meðal til dæmis Noregs og Danmerkur. Jeg vil ekki fara hjer út í útsvarsmálin. Jeg veit, að ástandið þar er mjög óheppilegt, og jafnvel illþolandi, eins og nú stendur. Hefi jeg fengið að kenna á því, vegna þess, að jeg hefi staðið í þræsum út af ágangi á kaupfjelögin í þeim efnum nærfelt 30 ár.

Þá nefndi háttv. þm. (J. Þ.) þá ástæðu gegn þessu ákvæði, að það mundi vekja gremju einstakra manna, því að samvinnufjelög væru mun betur sett, og undir þau hlaðið með þessum ákvæðum. En þetta frv. er einskonar neyðarvörn gegn gerræði því, sem þessi fjelög hafa óneitanlega verið beitt. Það er ekki altaf jafnað niður eftir efnum og ástæðum, og veit háttv. þm. (J. Þ.) það eins vel og jeg. Á þessum útsvörum hefir verið mjög mikið handahófsverk, og hefir það sjerstaklega komið niður á samvinnufjelöguuum, því að með þau hefir verið farið sem gróðafjelög, eða jafnvel ver. Það er erfitt að finna rjettlátan grundvöll fyrir útsvörin, ef lagt er á eftir veltu, en alls ekki arði. Kemur það illa fram á samvinnufjelögum, sem hafa mikla veltu, en lítinn eða engan arð. Mjer er þetta kunnugt, enda kærði jeg fyrir sambandið í fyrra óheyrilega hátt útsvar, sem á það hafði verið lagt hjer í Reykjavík. Má búast við, að slumpað hafi verið til um þá veltu, sem sambandið bókfærði á skrifstofu sinni hjer í Reykjavík, sumpart í þeim vörum, sem hjer komu í land, en einnig í þeim vörum, sem sambandið ráðstafaði til hinna ýmsu hafna víðsvegar um landið, og sumpart þeim útfluttu vörum, sem það ráðstafaði frá hinum ýmsu höfnum til útlanda.

Jeg vona því, að menn sjái, að hjer er ekki farið fram á hlunnindi, heldur aðeins það, sem sanngjarnt er.

Jeg skal játa, að jeg hefi ekki búist við, að málið geti gengið nefndarlaust gegn um deildina, og er þá rjettast að láta það fara til allsherjarnefndar.