28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

86. mál, samvinnufélög

Þorsteinn Jónsson:

Hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) hefir tekið fram margt af því, sem jeg ætlaði að segja, en þó verð jeg að fara um mál þetta nokkrum orðum.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði í gær, að eftir 1. gr. frv. mætti koma flestum hlutafjelögum undan skatti, því að þau þyrftu svo lítið til að breytast í samvinnufjelög eða telja sig það. En tilgangur samvinnufjelaganna er svo augljós, að ekki verða heimfærð önnur fjelög með ólíkum tilgangi undir ákvæði 2. greinar. Samvinnufjelögin miða að því að efla hag almennings. Fjelagar eru þar mörgum sinnum fleiri en í hlutafjelögum. Hlutafjelög eru venjulega gróðafjelög og safna oft almennum kaupsýslugróða, en hann er einmitt vel til þess fallinn að bera opinber útgjöld. Jeg er sannfærður um, að ekki verða önnur fjelög talin samvinnufjelög en þau, sem eru það í raun og veru, og ef hlutafjelög vilja vinna það til að taka á sig samvinnusnið, þá er vel.

Sami háttv. þm. (J. Þ.) sagði, að 2. og 3. gr. tækju líka til flestra fjelaga. Hæstv. atvrh. (P. J.) hefir hrakið þetta, en þó vil jeg fara um það nokkrum orðum. Viðvíkjandi 2. gr. sagði háttv. þm. (J. Þ.), að samkvæmt 3. lið næði ákvæðið til allra atvinnuvega. En tilgangur samvinnufjelaganna er einmitt að ná til allra atvinnuvega. Fjelagsskapurinn er nú aðallega kaupfjelag landbænda, en það er von margra, að hann nái yfir fleiri og fleiri svið,því að samvinnusniðið er eflaust heppilegra en gróðabrall einstaklinga og fjelaga, sem því miður hefir um of átt sjer stað undanfarandi ár. Og ekki getur það talist galli á þessu frv., að það gerir ráð fyrir útbreiðslu samvinnunnar.

Þá kem jeg að athugasemdum háttv. þm. (J. Þ.) við 3. gr. Hann reyndi að sýna fram á, að flest hlutafjelög gætu fallið undir ákvæði hennar. Þetta er vitanlega misskilningur. Samvinnufjelög eru bygð á sameiginlegri ábyrgð allra fjelagsmanna, en slíkt er algerlega andstætt hlutafjelögum. Þetta eitt nægir til þess að sýna muninn. Þá má benda á það, að samvinnufjelög eru ekki stofnuð í gróðaskyni. Þá tekur 5. liður það skýrt fram, að tekjuafgangur skuli skiftast milli fjelagsmanna eftir viðskiftaveltu hvers og eins. Ennfremur er það tekið fram, að verð fyrir seldar afurðir skuli greitt þeim, sem seldu, þegar frádreginn er kostnaður. Í hlutafjelögum er gróða skift eftir eign fjelagsmanna í fjelaginu. Þau byrja með einhvern höfuðstól, sem síðar á að gefa eigendum vexti og gróða, en samvinnufjelög byrja með tvær hendur tómar, byggjast á trausti fjelagsmanna og eru stofnuð í því skyni, að þeir hjálpi hver öðrum með samvinnu. Samvinnufjelög geta þó haft gróða, t. d. af verslun við utanfjelagsmenn, en sá gróði rennur í varasjóð, sem er til þess að taka á móti skakkaföllum. Hann skiftist aldrei upp á meðal fjelagsmanna. Leggist eitthvert fjelag niður, þá verður skuldlausum eignum þess ekki skift upp, heldur bíða þær og renna til nýs fjelags, sem stofnað kann að verða síðar með samvinnusniði þar í hjeraði. Á öllu þessu er auðsær munur á hluta- og samvinnufjelögum.

Þá hjelt háttv. þm. (J. Þ.), að ágreiningur mundi af þessu rísa, því að mörg fjelög mundu heimta að heyra hjer undir. En eins og fram hefir verið tekið, taka 2. og 3. gr. af öll tvímæli, og á því getur ekki leikið vafi, hvort eitthvert fjelag er samvinnufjelag eða ekki.

Þessi háttv. þm. (J. Þ.) sagði þann tilgang frv., að skjóta þessum fjelögum undan útsvarsskyldu. Hann kvað svo að orði, að þetta kæmi í bág við sveitarstjórnarlögin, því að þau fyrirskipuðu að jafna niður eftir efnum og ástæðum. En það má ekki líkja samvinnufjelögum við gróðafjelög eða einstaka menn í þessu efni Fjelögin eru í raun rjettri ekkert annað en nokkurskonar umboðsmenn allra fjelagsmanna. Hafi fjelagsmaður grætt, kemur það fram á útsvari hans, og þess vegna er það tvöfaldur skattur, ef líka er lagt á umboðsmann hans, samvinnufjelögin. Það er ekki um að ræða hjer, að skjóta neinum undan að bera rjettlátar byrðar þjóðfjelagsins, heldur er um það að ræða,að láta ekkisuma bera tiltölulega miklu meira en aðra.

Það má að vísu líta á verslun fjelaganna við utanfjelagsmenn eins og kaupmannaverslun, en þá ber þess að gæta, að gróðinn á utanfjelagsmannaversluninni er settur í sjerstakan sjóð, sem kemur fjölda manna að gagni, en kaupmannagróðinn nær ekki nema til eins manns og fjölskyldu hans. Það er því ekki hægt að mæla þetta á sama mælikvarða.

Það hefir verið tekið fram áður, að fjelögin eru aðeins umboðsmenn, og er því ekki rjett að leggja á þau útsvar. Sláturfjelag Suðurlands er t. d. aðeins umboðsmaður bænda og selur kjöt og fleira fyrir þá. Það væri öðru máli að gegna, ef fjelagið keypti vöruna og seldi á sína ábyrgð, bæri tap eða fengi gróða, eftir því sem á stæði. Það er kaupmannsreglan.

Fjelögin eiga að greiða í skatt, samkv. frv., 2% af virðingarverði húsa, og tel jeg það sanngjarnt að greiða þetta fyrir þá aðstöðu, sem sá staður veitir fjelögunum, þar sem þau hafa heimilisfang.

Háttv. þm. (J. Þ.) viðurkendi, að samvinnufjelögin væru illa sett þar, sem fjelagsmenn búa í öðru lögsagnarumdæmi en fjelagið hefði heimilisfang. Þetta er rjett, en það er ekki aðalatriðið. Það er rjett, að samvinnufjelögin hafa hingað til orðið fyrir herfilegu misrjetti vegna þessa, og ef engin breyting verður á, þá er mjög hætt við því, að eftir stefnu bæjarstjórnar Reykjavíkur með útsvarsálagningu á Sambandið geti svo farið, að það sjái sjer gróða í því að flytja úr bænum. eða jafnvel af landi burt. Sambandið danska í Kaupmannahöfn hefir alls enga útsvarsskyldu til Kaupmannahafnarborgar.