15.02.1921
Sameinað þing: 1. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Þorláksson:

Af því að jeg tel mig kunnugri flestum háttv. þm. undirbúningi kosningar þessarar, sem kært er yfir, þykir mjer hlýða að skýra frá ýmsu, er mál þetta upplýsir.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hjelt því fram, er hann var að finna að samningi aukakjörskrárinnar, að nýju kjósendurnir hefðu átt að komast á aukakjörskrá þá, er samin var í maí, og vitnaði í kosningalögin frá 1915, en kosningalögin frá 1915 reyndust ekki einhlít í þessu efni.

Aukakjörskrá skal samin fyrri hluta maímánaðar, en stjórnarskráin var staðfest 18. maí, svo að þótt staðfesting stjskr. hefði frjest þá þegar til Reykjavíkur, sem ekki mun hafa verið, þá er ekki hægt að ámæla nefndinni fyrir það, þó að hún tæki ekki á þessa aukakjörskrá kvenkjósendur þá, er kosningarrjett öðluðust með stjórnarskránni.

Enda átti slíkt ekkert að gera til. Aukakjörskráin lá frammi, kjósendum til athugunar, hinn lögskipaða tíma. Þeir, sem töldu sig hafa rjett til að vera á henni, gátu kært, en engin kæra kom fram frá þeim, sem öðlast höfðu kosningarrjett samkvæmt stjórnarskránni.

Hjer held jeg að nefndin eigi ekkert ámæli skilið, en sje nú samt svo, þætti mjer trúlegt, að sama ámælið hitti fleiri kjörskrárnefndir á landinu, eins og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) tók fram.

Þegar svo að leið fram yfir nýár og stjórnarskráin var í gildi gengin og farið var að athuga kjörskrárnar frekar, í sambandi við kosningar þær, er þá stóðu fyrir dyrum, þótti óhæfa að meina þeim mönnum að kjósa, er öðlast höfðu kosningarrjett samkvæmt nýju stjórnarskránni. Var mikið um það rætt, hvaða leið skyldi fara, svo að þessi fjöldi nýrra kjósenda gæti notið rjettar síns. Kom þá til mála að leita til stjórnarráðsins og kveðja það til bjargar máli þessu, á þann hátt, að stjórnarráðið gæfi út bráðabirgðalög, er heimiluðu nýjum kjósendum að komast á viðauka kjörskrá, svo þeir gætu kosið. Þó varð það ekki, heldur tók bæjarstjórnin til sinna ráða og ljet taka þessa nýju kjósendur upp á viðaukakjörskrá.

Við samning þessarar kjörskrár var alls þess gætt, er lög mæla fyrir því til tryggingar, að þeir einir kæmust á kjörskrá, sem kosningarrjett eiga, en óhjákvæmilegt var að stytta fresti, þar á meðal kærufrestinn: hann var færður niður í 9 daga, en lögin munu mæla svo fyrir, að hann skuli vera 11/2 vika.

Þegar alls þessa er gætt, er naumast hægt að átelja það, þó að semja yrði viðauka við aukakjörskrána, um fram það, sem lög mæla fyrir, til þess að gefa þessum fjölda kjósenda kost á að neyta rjettar síns, samkvæmt hinni nýju stjórnarskrá, og einnig þó að upp væru teknir á skrá þessa þeir menn, sem fallið höfðu úr á aðalkjörskrá, en einhverra hluta vegna ekki komið því við að kæra, eins og lögin mæla fyrir, að gera skuli við samningu aukakjörskrár. Þannig var nú undirbúningur þessarar kjörskrár, sem svo mjög er um deilt, og get jeg ekki annað sagt en að mjer finst hann engra ámæla verður. Í bæjarstjórn átti sæti helmingur frambjóðenda, þar af þrír efstir. Hver á sínum lista, og tveir á fjórða listanum. Öllum þessum frambjóðendum kom saman um það, að óhæfilegt væri að meina hinum nýju kjósendum að neyta rjettar síns, og voru þannig allir flokkar sammála uni að fara þá leið, er jeg hefi nú skýrt frá.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði, að kosið hefði verið eftir 5 kjörskrám. Þetta er ekki rjett. Segja má, að kjörskrárnar hafi verið 9. ein fyrir hverja kjördeild. En þar sem venjulega eru í hverjum kjörstað tvær kjörskrár, eða hlutar af kjörskrá, sem sje aðalskráin og aukaskráin, þá bætist hjer við þriðji hlutinn. framhaldsaukakjörskráin.

Það, sem hjer skiftir aðallega máli, er þetta, hvort Alþingi vill fallast á það, að kjósendum var leyft að njóta rjettar síns við kosningarnar, þó formgallar hafi verið á undirbúningi kjörskránna.

Svo vil jeg ennfremur skjóta því fram hjer, til skýringar og skemtunar, að maðurinn, sem undirskrifað hefir kæruna, er einmitt einn af þeim, sem teknir voru á viðaukann við aukakjörskrána.

Þá er annað kæruatriði, að einni kjördeild hafi verið lokað meðan enn var óslitinn straumur kjósenda. Það er satt, að einni kjördeild var lokað, áður en kosningin í heild var á enda — en þó ekki fyr en að liðnum lögskipuðum fresti. Orðalag kærunnar er óljóst í þessu efni, og mætti máske skilja það svo, sem þessari kjördeild hefði verið lokað meðan óslitinn straumur kjósenda var að henni, en svo var alls ekki, heldur kann að hafa verið óslitinn straumur kjósenda að öðrum kjördeildum. Formaður þessarar undirkjörstjórnar, sem er einn þektasti lögfræðingur bæjarins, heldur því fram, að skoða beri hverja kjördeild bæjarins á sama hátt og hreppana í sýslunum, og ef svo er (Bjarni Jónsson-. En það er ekki!) — en ef svo er — segi jeg — án þess að fullyrða nokkuð um það, virðist framkoma kjörstjórnarinnar lögleg. Annars get jeg þessa atriðis aðeins í sambandi við þau ummæli, sem komið hafa frá öðrum um lagabrot í þessu atriði, og til þess að sýna, að lögfræðingarnir sjálfir eru ekki sammála um þetta atriði. Að öðru leyti get jeg fullvissað hv. þm. um það, að tiltölulega mjög fáir kjósendur hafi orðið að hörfa frá fyrir þessar sakir. Það getur ávalt komið fyrir, að menn komi of seint, en það er ekki kjörstjórnanna sök, hafi þær á annað borð fylgt fyrirmælum laganna um biðir og fresti, áður en lokað var.