31.03.1921
Neðri deild: 31. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

31. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg þarf nú raunar varla að standa upp, og verð því ekki langorður.

Frv. er komið frá Ed., og hefir hv. Ed. gert breytingar á fjórum atriðum.

Við 5. gr. hefir verið bætt inn í umframgreiðslu fyrir árið 1919; þó að óþarfi sje að taka þetta upp í fjáraukalög, þar sem lagaheimild er fyrir þessari greiðslu samkvæmt öðrum lögum, þá hefir þó Ed.-nefndin gert það vegna þess, að samskonar umframgreiðsla var tekin upp í frv. fyrir árið 1918, og hefir því nefndin heldur tekið þetta upp til samræmis, heldur en að fella hina töluna niður. Að öðru leyti hefir nefndin tekið upp í þessa grein, undir „önnur gjöld“, umframgreiðslu á árinu 1918. kr. 13.844,15. Er þessi liður sjálfsagður, en hafði skotist undan endurskoðunarmönnum landsreikninganna, og því ekki verið athugað hjer í þessari hv. deild.

Viðvíkjandi 8. gr., tölul. 8. b., hefir verið færð niður umframgreiðsla á launum skógarvarða fyrir árið 1918 um kr. 200.00, þar sem það hafði sparast á þeim lið árið áður.

Og að lokum er það við sömu gr. ferðakostnaður síldarmatsmanna. Hafði hann verið færður út með rangri tölu, sem orsakaðist af því, að í prentuninni hafði ruglast saman ferðakostnaður síldarmatsmanna og fiskimatsmanna.

Fleira hefir nefndin ekki að athuga, og leggur til að frv. verði samþ. eins og það liggur hjer fyrir.