14.03.1921
Neðri deild: 22. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

34. mál, landsreikningar 1918 og 1919

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Það liggur fyrir að þessu sinni frv. til laga um samþykt stærri landsreiknings en nokkru sinni áður. Samlagningartölurnar velta hjer á tugum miljóna, en hafa aldrei áður komist hærra en að ná hálfum öðrum tug. Ekki er þó ástæða til að halda þessu mjög á lofti, því að verulegur hluti upphæðanna er lán, tekin og endurgreidd, og nema þau, á hvorri hlið reikningsins, fullum tveim fimtu. Þetta er einmitt það, sem einkennir svo mjög þennan landsreikning. 27 miljónir gjaldamegin, og þar af 12 miljónir vextir og afborganir lána.

Engan þarf annars að furða á þessu, sem athugar þau mörgu og þýðingarmiklu fjesýslufyrirtæki ríkisins á þessum árum, svo sem skipakaup og rekstur landsverslunar.

Reikningslega hefir fjárhagsnefnd ekki um þetta skírskotað til nál. á þskj. 127. meðferð hennar á því get jeg þess vegna um þetta skírskotað til nál. á þskj. 127. Hún leggur til, að það verði samþ. óbreytt, en í því þarf eigi að liggja það, að hún hefði eigi kosið aðra niðurstöðu. Jeg vil í þessu sambandi benda á 19. gr., óvissu útgjöldin. 1914 og 1915 voru þau áætluð 18.000 kr., en urðu 44.000 kr., eða meira en tvöföld við áætlun. 1916 og 1917 var áætlun 30.000 kr., en reikningur yfir 300.000 og þess vegna tíföldun. 1918 og 1919 var áætlun 40,000 kr., en reikningur þessi yfir 470,000, og er þá áætlunin nær tólffölduð.

Þessi gífurlegu stökk frá áætlun til reiknings stafa vitanlega af þeim margvíslega erfiðleika og dýrtíðarerfiðleikum, sem meira eða minna óvart hafa sótt að. Hjá þeim varð eigi komist, og þýðir lítið að benda þar á einstaka útgjaldaliði, þótt óvænt hafi háir orðið. Af þeim skal jeg til athugunar nefna kostnað við lögnám á ull 1918 og 1919, sem varð yfir 140,000 kr., og hefir nefndin að vísu fengið skýringu á þessum lögnámskostnaði, sem hún tekur gilda.

Um einstök atriði skal jeg svo eigi fjölyrða frekar og þykist ekki þurfa þess, en um aðalniðurstöðuna hefi jeg vísað til nál.