14.03.1921
Neðri deild: 22. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

34. mál, landsreikningar 1918 og 1919

Jón Þorláksson:

Jeg ætla ekki að fara að vekja langar umræður um þetta mál, en verð þó að geta þess, að mjer fanst svar hæstv. fjrh. (M. G.) ófullnægjandi, þar sem hann hefir ekki fundið þennan annmarka, og finnur ekki ástæðu til að bæta úr, nema sjerstök tillaga komi frá fjhn. og endurskoðunarmönnum. Auðvitað geta menn, sem þessum málum eru kunnugir, fundið út tekjuafgang eða halla, en þó því að eins, að þeir hafi skýrslu þá, er fjrh. (M.G.) gat um, og þá yrði að gera það með samanburði og frádrætti á 50–60 tölum. Jeg ætla alls ekki að gera hjer eða nú grein fyrir því, hvaða form jeg vilji hafa á landsreikningnum. Það tjáir ekki að skírskota til annara stofnana, eins og t. d. Eimskipafjelagsins; tekjuhalli og gróði sjest á öllum slíkum reikningum. Jeg tel nauðsyn bera til þess að gera breytingu á þessu, svo að fjárhagsafkoma landssjóðs verði öllum almenningi ljós, og hefi jeg enga trú á, að þetta lagfærist af sjálfu sjer, á þann hátt, að lán og greiðslur af lánum geti horfið út úr landsreikningnum fyrst um sinn.