18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Mjer skaust yfir að svara atriði úr ræðu háttv. þm. Borgf. (P. O.), og skal nú gera það með örfáum orðum. Háttv. þm. (P. O.) hjelt, að það mundi draga úr aflanum, ef frv. þetta yrði samþykt. Þessu er að vísu svarað í nál., en af því, að háttv. þm. (P. O.) hefir líklega ekki áttað sig á því, get jeg skýrt það fyrir honum. Það gæti hugsast, að þessi tilhögun drægi úr aflanum, þegar skip kemur á veiðar og hafa þarf vökuskifti þegar í stað. En það gildir aðeins fyrsta sólarhringinn, síðan vinst það upp, því mennirnir vinna meira og betur, ef þeir fá sæmilega hvíld. Lögákveðinn hvíldartími háseta mundi því auka aflann yfirleitt, þó að hann drægi eitthvað úr í eitt og eitt skiftið, og auk þess tryggir hann líf og heilsu hásetanna.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) þurfti að leggja orð í belg, og valdi þær mótbárur, að málið hefði ekki farið fyrir rjettan málsaðilja, útgerðarmennina. Þetta kemur til af þeirri undarlegu skoðun háttv. þm. (J. Þ.), að hann skoðar alla tíma vikunnar, 168 tíma, eign útgerðarmannanna, og þeir miðli einhverju er þeir veiti hvíldartíma. En einmitt af því, að útgerðarmenn líta eins á þetta mál, er óheppilegt fyrir háseta að semja um það. Þeir mundu vitanlega selja hvern einasta hvíldartíma.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) hjelt, að frv. yrði til þess að vekja úlfúð og ósætti, en jeg er á gagnstæðri skoðun. Jeg veit, að það verður til þess að koma á friði með skipshöfnunum. Þegar hvíldartíminn er lögákveðinn, er hægt að ganga að honum sem sjálfsögðum hlut, og þurfa ekki að standa deilur um hann í hvert skifti, sem ofbjóða á hásetum með vökum. Hitt þarf jeg ekki að endurtaka, að þessar ákvarðanir miða miklu fremur að því að auka framleiðsluna en minka hana.