18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Magnús Kristjánsson:

Hjer hefir komið fram það, sem gamalt orðtæki segir, að hver lái sinn brest mest. Það er auðveldara að sjá flísina í augum annara en bjálkann í sínu eigin. Þetta fanst mjer koma í ljós hjá háttv. þm. Borgf. (P. O.). Hann var mikið að fárast um, að jeg talaði af hita og kappi, en það er fjarri öllum sanni, því jeg talaði mjög hóglega, eins og minn er siður. En það getur verið, að móðurinn hafi ekki verið af honum runninn meðan jeg sagði þessi hógværu orð, og þótt jeg þurfi varla að svara honum nú, ætla jeg að gera það, til þess að kæla dálítið í honum blóðið fyrir atkvæðagreiðsluna, ef það er annars mögulegt.

Háttv. þm. (P. O.) taldi óviðeigandi að bera mál þetta fram, þar sem þess væri ekki óskað. Þetta er fjarri öllum sanni. Hjer liggja fyrir eindregnar áskoranir, og verður ekki frekar ákosið, og undir þær hafa skrifað mörg hundruð sjómanna.

Annað var furðulegt í ræðu háttv. þm. (P. O.); hann taldi óheppilegt að setja um þetta lagaákvæði og vildi, að sjómennirnir tækju rjett sinn með sjálfs hendi. Jeg veit ekki, hvernig á að skilja þetta, en það gæti gefið tilefni til margvíslegra hugleiðinga, en líklegast tel jeg, að það sje aðeins sagt út í bláinn, eins og fleiri andmæli gegn frv.

Þá hjelt háttv. þm. (P. O.), að þetta væri samningamál, en háttv. frsm. (J. B.) hefir nú sýnt fram á, að svo er ekki. Þarf jeg ekki að endurtaka það. En ef hjer væri um samningamál að ræða, væri annar málsaðili skipstjóri, en ekki útgerðarmaður.

Ummæli hans um bændurna voru illa til þess fallin að gagna hans málstað, því hafi þau verið tilraun til að spilla fyrir frv., þá hygg jeg, að hún hafi algerlega mishepnast. Háttv. frsm. (J. B.) benti einnig á þessa tilraun hans, svo ekki þarf að fjölyrða um hana. Það sjá allir, að þetta mál á ekkert skylt við það, að lögbjóða vinnutíma til sveita. Þetta sjá bændur, og þess vegna eru tilraunir háttv. þm. (P. O.) árangurslausar, en söm er viðleitni hans fyrir því.