14.03.1921
Neðri deild: 22. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

34. mál, landsreikningar 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (M.G.):

Það er varla hægt að búast við því, að jeg hafi allar tölur, sem um kynni að verða spurt, á reiðum höndum, þar sem ekki er á þetta minst í nefndarálitinu. En það get jeg sagt strax, að þessi mismunur er að sumu leyti kostnaður við seðla á árinu 1918 og að sumu leyti hálfur kostnaður af erindrekasendingu til Ameríku. Landsverslunin leit svo á, að hún ætti ekki að borga kostnaðinn við erindreka nema að hálfu leyti, en stjórnin áleit rjettara að hún borgaði hann að öllu leyti, með hliðsjón af því, að landsverslunin borgaði engan kostnað af veru Björns Sigurðssonar í London. Um þessa upphæð er annars enginn ágreiningur, en ástæðan til þessa ósamræmis er sú, að reikningur landsverslunarinnar var gerður áður en landsreikningurinn var tilbúinn. Jeg man nú ekki í bili þær tölur, sem hjer er um að ræða, en mun geta upplýst það við 3. umr.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) virtist álíta að útgjöld ríkissjóðs væru sett á landsverslunarreikninginn. Um það má ef til vill deila, en jeg held því fram, að svo sje ekki, en þótt svo væri, er það varla höfuðsök, þar sem verslunin er eign ríkissjóðs. Annars hjelt jeg ekki, að hv. þm. (Jak. M.) kærði sig um að láta afkomu landsverslunar líta betur út en hún segir sjálf. En kannske þetta sje eitthvað að breytast hjá hv. þm.