29.04.1921
Neðri deild: 58. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Hákon Kristófersson:

Jeg hefi, ásamt háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.), leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 403, og aðra brtt. við hana á þskj. 420. Seinni tillagan er fram komin af því, að við nánari athugun sáum við, að tíminn, sem við höfðum áður gert ráð fyrir, var of stuttur, þar sem vetrarvertíð byrjar fyr á Suðurlandi. Hvaða getsakir, sem háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) vill láta sjer sæma að gera okkur út af þessu máli, vitum við það, og höldum fast fram, að till. okkar eru á engan hátt sprottnar af illvilja til málsins, heldur þvert á móti. Þær eru aðeins fram komnar til þess að gera frv. sanngjarnara í verkunum sínum á því svæði, þar sem við þekkjum best til — og það miklu betur en háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), að þeim mæta manni annars ólöstuðum. Því, eins og hagar til fyrir Vesturlandi — og allir kunnugir vita — er t. d. veðrátta svo óstöðug þar um veiðitímann, ekki síður en endranær, að ómögulegt er að setja þar fastákveðinn vinnutíma, ef útgerðin á ekki að bíða því tilfinnanlegri hnekki við það. En einmitt af þessari óstöðugu veðráttu leiðir það líka, að hásetum getur varla verið ofboðið þar með vökum, því óstöðugleiki veðráttufarsins gerir það að verkum, að skipin verða oft að liggja athafnalaus dögum saman, og ekki þurfa menn að ofþreyta .sig á vökum þá.

Dylgjur háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) um hálfvelgju mína í þessu máli læt jeg sem vind um eyrun þjóta, og eins annað skraf hans um illar afleiðingar till. okkar, eins og t. d. það, sem hann hefir oft talað um, að af þeim mundi spretta úlfúð milli háseta og útgerðarmanna. Jeg fyrir mitt leyti er alls ekkert hræddur um slíkt, að minsta kosti ekki meðan hásetar eiga svo ágætan foringja sem háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) sjálfan.